
Sjötta föstudagsseminar Sagnfræði- og heimspekideildar um söguleg efni verður næsta föstudag 10. október, í stofu 102 Gimli (G102), kl. 12-13. Framsögumaður í þetta skiptið verður Sigurður Gylfi Magnússon með efni sem nefnist:
Alfræði alþýðunnar á 19. öld – Hvernig á að „lesa“ alþýðulist?
Kjarni tölunnar er eftirfarandi:
Við Árni H. Kristjánsson sagnfræðingur höfum á undanförnum misserum verið að skoða handrit Jóns bónda Bjarnasonar (ÍBR 67-73 4to) frá Þórormstungu í Vatnsdal. Um er að ræða nokkurs konar alfræðiverk í níu bindum um sköpun heimsins og þróun tegundanna. Verkið vann hann á árunum 1845-1852 heima í Vatnsdal. Það er um margt óvenjulegt meðal annars sú staðreynd að því fylgir heilt bindi sem eingöngu er með teikningum af viðfangsefnum hans. Í framsögunni mun ég stuttlega gera grein fyrir Jóni bónda og viðfangsefnum hans og velta fyrir mér hvernig alþýðumaður eins og hann hafi náð að finna sköpun sinni farverg með þeim hætti sem handritið ber með sér. Undirliggjandi spurning verður einnig hvernig best sé að rannsaka alþýðulist. Ég og meðhöfundur minn Árni H. Kristjánsson munum birta efni úr handritinu nú á haustmánuðum í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar, en hún verður 17. bókin í flokknum. Við munum einnig fjalla um handritið frá ýmsum hliðum í fyrri hluta bókarinnar.
Allir áhugasamir geta tekið þátt í málstofunni og mega taka með sér nesti.