
Fimmtudaginn 9. október halda Claudia Öhlschläger og Antonio Roselli fyrirlestra við Háskóla Íslands. Fyrirlestur Claudiu Öhlschläger hefst kl. 12:00 og fyrirlestur Antonios Roselli verður fluttur í beinu framhaldi af honum, kl. 13:00. Fyrirlestrarnir verða fluttir á þýsku og verða í Öskju, stofu 129. Claudia Öhlschläger er prófessor í bókmenntafræði við háskólann í Paderborn og Antonio Roselli er doktorsnemi í bókmenntafræði við sama skóla.
Claudia Öhlschläger: „Tími og tímavídd í knöppum frásagnarformum módernisma og póstmódernisma.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um tímavídd knappra frásagnarforma um aldamótin 1900 og 2000 frá tveimur sjónarhornum. Annars vegar verður litið á mikilvægi andartaksins, hins vegar á sérstæða eiginleika hins knappa frásagnarforms. Gengið verður út frá þeirri forsendu að knöpp frásagnarform séu einkar vel til þess fallin að miðla margþættri reynslu tímans. Fyrirlesturinn byggir á kenningum Rolands Barthes um hið knappa form. Í fyrirlestrum við Collège de France undir lok áttunda áratugarins fjallaði franski menningarfræðingurinn um „fíngerða díalektík tímans“ er einkum birtist í hinu knappa formi, vegna sérstaks samband þess við samtímann og hendinguna. Díalektíkin býr í spennunni sem myndast á milli þess sem birtist og minninganna sem það kallar fram. Með hliðsjón af kenningu Barthes verður leitað svara við því hvort greina megi nýja tegund skrifa í módernisma og póstmódernisma, þar sem sagt er skilið við rótgróin mörk bókmenntagreina og tilraunir gerðar með nýja sýn á frásagnir tímans. Að hvaða marki má líta á hið knappa frásagnarform sem mótun sannleika á sviði hins tilraunakennda og mögulega? Sjónum verður beint að stuttum prósatextum eftir Ernst Jünger, Robert Musil, Alain Robbe-Grillet og Alexander Kluge.
Antonio Roselli: „Aðgerðabundin þekking á „stund hættunnar“. Líkamstækni og pólitísk mannfræði í skrifum Walters Benjamin“
Í ritinu Das Passagen-Werk fjallar Walter Benjamin um færni fjárhættuspilarans í að bregðast við tilviljunum. Viðbrögðin tengjast hvers kyns tilraunum til að „túlka tilviljunina“ og litið er á þau sem árvekni, að „lesa“ rétt í aðstæður. Í textanum „Notizen zu einer Theorie des Spiels“ leggur Benjamin ríkari áherslu á líkamlegan þátt aðgerðarinnar og horfir þar til sambands auga og handar, hvernig taugaviðbrögð slitna úr sambandi við sjónskynjunina. Þannig lærir spilarinn að gefa höndina á vald hljóðu taugaviðbragði, sem gerir honum kleift að lesa rétt í leikinn á ögurstundu. Benjamin fjallar einnig um aðgreiningu auga og handar í greininni „Programm eines proletarischen Kindertheaters“. Þar lýsir hann málaranum sem „manni er horfir nánar með höndinni þegar augað þreytist, þannig að sjónskynjunin færist yfir á skapandi taugaviðbragð handarinnar“. Þetta sjónarhorn leggur grunn að skilgreiningu hans á bendingunni: „Sérhver bending barns er skapandi taugaviðbragð sem er órjúfanlega tengt skynjun.“ Í fyrirlestrinum verður lýsing Benjamins á spilaranum og barnaleikhúsinu tengd tegund pólitískrar þekkingar sem bundin er í aðgerð. Færni þess greinanda sem byggir starf sitt á sögulegri efnishyggju, sem felst í að „halda í mynd af fortíðinni eins og hún birtist sögulegum geranda alls óvænt á stund hættunnar“, minnir á færni spilarans sem velur rétta tölu á réttu andartaki. Þetta sprettur þó ekki alfarið af skynjun og túlkun, heldur einnig af samþættingu „skapandi“og „skynjandi“ taugaviðbragða er fela í sér líkamlegt viðbragð. Hér vaknar sú spurning hvort samþættingin sem greina má í bendingunni feli í sér þjálfun aðgerðabundinnar þekkingar – og þar með líkamstækni – og hvernig tengja megi viðstöðuleysi og þjálfun við nýjar gerðir byltingarsinnaðra hreyfinga.