
Vorbrautskráning kandídata frá Háskóla Íslands fer fram í Laugardalshöll laugardaginn 21. júní nk. Eins og verið hefur síðustu ár fer brautskráningin fram í tvennu lagi.
· Kl. 10.30 fer fram brautskráning kandídata sem eru að ljúka framhaldsnámi að loknu grunnnámi, þ.e. diplóma- og viðbótarnámi á framhaldsstigi, meistaranámi og kandídatsnámi.
· Kl. 14.00 fer fram brautskráning kandídata sem eru að ljúka grunnnámi, þ.e. BA-, B.Ed.- og BS-námi.
Áætlað er að hvor athöfn um sig taki allt að tvær klukkustundir.
Kandídötum er ætlað afmarkað svæði og eru þeir beðnir um að mæta ekki síðar en klukkustund áður en athöfnin hefst. Hver kandídat verður með númerað sæti sem kemur fram á nafnalista sem afhentur verður með dagskrá við innganginn og er sætaskipan í samræmi við afhendingu prófskírteina. Umsjónarfólk verður á staðnum til að leiðbeina um sætaskipan.
Prófskírteini verða afhent í röð eftir fræðasviðum: Félagsvísindasvið, Heilbrigðisvísindasvið, Hugvísindasvið, Menntavísindasvið og Verkfræði- og náttúruvísindasvið.
Kandídatar fá heimsend bréf með nánari upplýsingum.