
13. júní n.k. kl. 15:00 mun Bragi Skúlason verja doktorsritgerð sína í mannfræði sem nefnist “Samtal um dauða og sorg: Íslenskir karlar og ekklar”. Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og er öllum opin.
Andmælendur eru: Dr. Kristín Björnsdóttir og Dr. Christine Valentine.
Leiðbeinendur eru Dr. Gísli Pálsson og Dr. Ásgeir R. Helgason, en auk þeirra sat Dr. Arnar Árnason í doktorsnefndinni.
Ritgerðin fjallar um íslenska karla í návist dauðans. Hún er byggð á fyrstu rannsókn á íslenskum ekklum og nær yfir allt landið. Gengið er út frá kenningum um “samverkan” (intra-acting) og að “verða með” (becoming with) og því haldið fram að hugmyndin um framlengt tengslasjálf (extended relational self) sé raunsannari mynd mennskunnar en þær sem hefðbundin lífsiðfræði (bioethical framework) stendur fyrir. Þótt tengslaviðhorfið sé ekki nýtt, þá hafa sorgarrannsóknir hérlendis verið fáar og þekkingargrunnur því ekki nægilega traustur og hefur því ekki skapast sá farvegur fyrir það í sorgarvinnu sem ástæða hefði verið til.
Bragi Skúlason er fæddur á Akranesi 28. ágúst 1957. Hann lauk kandidatsprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1982 og uppeldis- og kennslufræði frá sama skóla 1983. Hann lauk sérnámi í sálgæslu frá Abbott Northwestern Hospital í Minneapolis 1988 og námi í fjölskylduvinnu og fjölskyldumeðferð frá Endurmenntun Háskóla Íslands 1997. Bragi lauk meistaraprófi í hagnýtri guðfræði M.Sc. frá Háskóla Íslands 2004.
Eiginkona Braga er Anna Þ. Kristbjörnsdóttir. Þau eiga þrjú börn og fjögur barnabörn.
Hægt er að ná í Braga í tölvupóstfanginu brs6@hi.is eða í síma 824-5505.