
Föstudaginn 2.maí ver Frímann Haukur Ómarsson doktorsritgerð sína í efnafræði við Háskóla Íslands.
Verkefnið ber heitið Samhverfur, hvarfgangar og orkujafnvægi í rjúfandi rafeindarálagningu á halógeneraðar metan-, sílan- og germanafleiður / Symmetries, dynamics and energetics in dissociative electron attachment to selected group IV halides - Velocity slice imaging and mass spectrometric study.
Leiðbeinandi
Dr. Oddur Ingólfsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands
Doktorsnefnd
Dr. Nigel J. Mason, prófessor, The Open Univeristy, Milton Keynes, Bretlandi
Dr. E. Krishnakumar, prófessor, Tata Institute of Fundamental Research, Mumbai, Indlandi
Andmælendur
Dr. Jimena Gorfinkiel, Senior Lecturer, The Open University, Milton Keynes, Bretlandi
Dr. Janina Kopyra, Assistant Professor, Siedlce University, Siedlce, Póllandi
Hafliði Pétur Gíslason prófessor og deildarforseti Raunvísindadeildar stjórnar athöfninni.
Ágrip
Víxlverkan lágrokurafeinda við sameindir gegnir mikilvægu hlutverki í ýmsum ferlum, bæði náttúrulegum og í iðnaði. Slík víxlverkan getur annað hvort leitt til beins endurkasts á rafeindinni eða tímabundið til myndunar á neikvæðri jón. Þegar slík neikvæð jón myndast eykst innri orka sameindarinnar um þá orku sem samsvarar hreyfiorku rafeindarinnar og rafeindasækni sameindarinnar. Hún er því í örvuðu ástandi og þarf að að slaka og losna við umframorku. Þessi slökun getur átt sér stað með því að rafeindin losnar aftur frá sameindinni eða með rofi efnatengja; ferli sem kallað er rjúfandi rafeindarálagning. Í rjúfandi rafeindarálagningu myndast neikvætt hlaðið sameindarbrot og eitt eða fleiri óhlaðin sameindarbrot. Í þessari ritgerð eru niðurstöður rannsókna á rjúfandi rafeindarálagningu á völdum halógeneruðum metan-, sílan- og germanafleiðum kynntar. Ritgerðinni má skipta í tvo hluta. Í fyrri hlutanum eru mælingar kynntar þar sem notast er við hraðasneiðmyndartækni. Efnin sem mæld voru með þeirri tækni eru CF4, CF3Cl og CF3I. Í öllum efnunum sáust ferlar sem ekki hafa sést áður með hefðbundnum mæliaðferðum. Í rjúfandi rafeindarálagningu á CF4 er sýnt að víxlverkan rafeindarinnarar við þessa sameind er best lýst sem víxlverkan við samsetningu tveggja samhverfuástanda, þ.e. upphafssamhverfu sameindarinnar og aflagaða samhverfu neikvæðu jónarinnar. Í CF3Cl er sýnt fram á að F– myndast í tveimur ferlum, en ekki einum eins og áður var talið og í CF3I sést að meirihluti óhlaðins joðs myndast í grunnástandi sínu í rjúfandi rafeindaálagningu öfugt við ljóseindaörvað tengjarof þar sem joð klofnar frá sameindinni í örvaðu ástandi. Í síðari hlutanum eru rannsóknir á rjúfandi rafeindarálagningu á XY4 (X = C, Si og Ge og Y = F og Br) kynntar. Rjúfandi rafeindarálagning á sum þessara efna hefur verið rannsökuð áður, en þær rannsóknir eru ekki jafn yfirgripsmiklar og þær sem kynntar eru hér. Þversnið myndunar anjóna er mælt sem fall af rafeindaorku og bæði myndunarþröskuldur sameindabrotanna og hámark líkinda fyrir myndun þeirra er ákvarðað.
Um doktorsefnið
Frímann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2006. Hann lauk BS prófi í efnafræði frá HÍ 2009 og hefur síðan stundað doktorsnám í efnafræði. Frímann er Í sambúð með Tinnu Björk Gunnarsdóttur.