
MARK Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna og RBF Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd efna til málstofu í Lögbergi stofu 101 kl. 12-13:30 fimmtudaginn 3. apríl n.k um nýútkomna bók Bjargar Guðrúnar Gísladóttur, Hljóðin í nóttinni – Minningasaga. Á bókarkápu segir að bókin geymi:
„Átakanlegar örlagasögur sem mótuðu líf lítillar stúlku og foreldra hennar á sjöunda áratug síðustu aldar. Hörð lífsbarátta í eymd og niðurlægingu í Höfðaborginni í Reykjavík. Og sárskafullt uppgjör við margt af því ljótasta sem lífið hefur upp á að bjóða“.
Bókin hefur vakið mikla athygli og hefur Björg lagt fram mikilvægan skerf til umræðunnar um börn sem hafa verið beitt ofbeldi í uppvexti sínum og búið við ofbeldi í sínu nánasta umhverfi. Saga Bjargar gerist á síðari hluta 20. aldar og vekur bókin upp áleitnar spurningar um hvernig staða þessara mála er í dag. Hvernig er kerfið í stakk búið til að bregðast við þessum málum í dag? Hvaða viðhorf eru ríkjandi meðal almennings og hvernig hafa þau áhrif? Hvað hefur breyst frá þeim tíma sem Björg greinir frá í bók sinni?
Á málþinginu mun höfundur lesa valda kafla úr bókinni. Í kjölfarið verða pallborðsumræður um bókina og hlutskipti barna sem eru fórnarlömb heimilisofbeldis og kynferðislegs ofbeldis. Í pallborði sitja: Anni G. Haugen lektor í félagsráðgjöf við HÍ og sérfræðingur í barnavernd og kynbundnu ofbeldi. Ingólfur V.Gíslason, lektor í félagsfræði við HÍ og sérfræðingur í karlmennsku og ofbeldi og Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta grasrótarsamtaka sem berjast gegn kynferðisofbeldi.
Fundarstjóri er Hallfríður Þórarinsdóttir forstöðumaður MARK
Málþingið verður haldið í Háskóla Íslands, Lögbergi stofu 101, frá 12-13:30
Málþingið er opið, öll velkomin.