Hvenær hefst þessi viðburður:
13. febrúar 2014 - 12:00 til 13:00
Staðsetning viðburðar:
Nánari staðsetning:
Stofa 201

Fimmtudaginn 13. febrúar 2014 kl. 12-13 í stofu 201 í Árnagarði halda Jónína Einarsdóttir og Helga Finnsdóttir fyrirlestur á vegum MARK Miðstöðvar margbreytileika- og kynjarannsókna við Háskóla Íslands undir yfirskriftinni Staðgöngumæður: Frjálsar og fórnfúsar konur.
Kynntar verða niðurstöður rannsóknar á staðgöngumæðrum sem og hugmyndir fjölmiðla og áhugafólks um staðgöngumæðrun um konur sem ganga með barn fyrir aðra. Stuðningsmenn staðgöngumæðrunar telja flestir að konur séu sjálfar best til þess hæfar að taka ákvörðun um að gerast staðgöngumæður en finnst þó að slíkt skuli eingöngu leyft í velgjörðarskyni. Þeir lofa hina fórnfúsu konu og vitna gjarnan til rannsókna sem sýna að staðgöngumæðrun sé að mestu vel heppnuð á Vesturlöndum. Þá telja þeir gjarnan að lögleiðing staðgöngumæðrunar komi í veg fyrir arðrán á erlendum fátækum staðgöngumæðrum.
Andstæðingar lögleiðingar telja engan hafa rétt á að nýta sér líkama annarra, hvorki með greiðslum né félagslegum þrýstingi. Lögleiðing staðgöngumæðrunar geti gert hana sjálfsagða í hugum fólks og skapi þrýsting á konur um að ganga með barn fyrir aðra. Þá taka sumir ekki afstöðu til málsins og telja að þörf sé á meiri umræðu og auknum rannsóknum. Fræðimenn kvarta vissulega undan skorti á rannsóknum en ásókn í þjónustu indverskra staðgöngumæðra virðist aukast frá löndum sem hafa lögleitt staðgöngumæðrun, s.s. Bretlandi og Ástralíu.
Jónína Einarsdóttir er prófessor í mannfræði við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands og Helga Finnsdóttir, MA í mannfræði, er sérfræðingur í mannauðs- og launamálum hjá Samgöngustofu.
ÖLL VELKOMIN