
Degi íslenska táknmálsins verður fagnað í annað sinn 11. febrúar 2014. Málnefnd um íslenskt táknmál vekur athygli á þessum degi og stöðu íslensks táknmáls, eina hefðbundna minnihlutamálinu á Íslandi. Hægt er að nálgast alla dagskrá dagsins á vef Samskiptamiðstöðvar heyrnalausra og heyrnaskertra, en m.a. verður efnt til táknmálskennslu í Kringlunni og í skólum.
Málþing Málnefndar um íslenskt táknmál og Rannsóknastofu í tákmálsfræðum verður haldið í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands kl. 15-18. Þingið ber heitið „Tveir heimar mætast“ og fjallar um hvaða ávinning má sjá af því að til er íslenskt táknmálssamfélag með döff menningu og þeirri þekkingu sem í henni felst.
Dagskrá málþingsins er fjölbreytt (sjá neðst). Aðalerindi verður flutt af Dr. Dirksen Bauman, prófessor við Gallaudet háskóla í Washington. Erindið verður spilað á málþinginu en það er flutt á amerísku táknmáli og ber heitið Deaf gain and Hearing Loss: The Benefits of Sign Language to Humanity (Döff gróði og heyrendatap/heyrnartap: Ávinningur mannkynsins af táknmálum). Dr. Bauman fjallar um ávinning mannkynsins af táknmálum og menningu döff fólks. Ávinningurinn er greindur á sviði sköpunar, menningar og vitsmuna og er skipt í ávinning samfélaga heimsins og ávinning döff fólks sjálfs. Táknmál heimsins hafa það fram yfir raddmál að geta tjáð veruleikann í þrívídd. Þetta hefur áhrif á taugabrautirnar í heilanum og bein áhrif á þróun hugsunarinnar. Sjón döff fólks er skarpari og sjónræn skynjun þess er hraðari og nákvæmari. Heyrandi fólk getur grætt á því að læra um hvernig heili döff fólks vinnur. Hann tekur spennandi dæmi um skapandi framlag döff fólks til heimsins á sviði arkitektúrs, myndlistar, sagna, bókmennta, kvikmynda o.s.frv. Hann færir jafnfram rök fyrir því hvernig það að tala táknmál getur raunverulega fært okkur betri heim. Þá fjallar hann um hvað döff börn geta fært samfélaginu ef þau fá að alast upp sem döff en ekki litið á þau sem börn með heyrnartap – þ.e. börn sem vantar eitthvað í stað þess að vera börn sem færa okkur eitthvað mikið og eitthvað einstakt.
Jóhannes Gísli Jónson, lektor í íslensku og málvísindum við Háskóla Íslands, mun flytja erindi um ávinning af táknmálsrannsóknum fyrir málvísindin en auk þessa verða flutt stutt erindi og skemmtiatriði sem vísa til lífsreynslu þeirra sem búa í báðum heimum.
Dagskrá:
- 15:00 Setning og kynning á dagskrá.
- 15:05 Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri Mennta- og menningarmálaráðuneytis flytur ávarp.
- 15:15 Hvaða heimi tilheyri ég? Margrét Gígja Þórðardóttir, kennslustjóri og ráðgjafi hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
- 15:30 Deaf gain and Hearing Loss: The Benefits of Sign Language to Humanity. Döff gróði og heyrendatap/heyrnartap: Ávinningur mannkynsins af táknmálum. Myndbandsfyrirlestur. Dr. Dirksen Bauman, prófessor við Gallaudet háskóla í Washington.
- 16:10 Kaffihlé. Kynningar á SignWiki.is og SpreadtheSign.com.
- 16:30 Samsöngur á íslensku táknmáli og íslensku.Kolbrún Völkudóttir og Sigrún Hjálmtýsdóttir, undirleikari Jóhann G. Jóhannsson.
- 16:40Í tveimur heimum. Darri Hauksson, CODA.
- 16:55 Ávinningur af táknmálsrannsóknum. Hvað græða málvísindin á táknmálum? Jóhannes Gísli Jónsson, lektor í íslensku og málvísindum við Háskóla Íslands.
- 17:25 Ólíkir menningarheimar. Uldis Ozols, táknmálskennari og Júlía Guðný Hreinsdóttir, fagstjóri í íslensku táknmáli.
- 17:35 Málstofustjóri stýrir umræðum um ávinning samfélagsins af íslensku táknmáli.
- 18:00 Málþingi slitið.