
Á fimmtudaginn (9. mars) kl. 16.30 í stofu 101 í Odda í Háskóla Íslands flytur Astrid Ogilvie fyrirlestur um heimildir um loftslagsbreytingar og hafís við Ísland frá landnámi til loka nítjándu aldar. Fornbókmenntirnar geyma margvíslegar heimildir um veðurfar. Í fyrirlestrinum verður fjallað um helstu heimildirnar, þær metnar og dregnar af þeim ályktanir loftslagsbreytingar á Íslandi undanfarin þúsund ár eða þar um bil. Heimildirnar eru nokkuð strjálar fram um 1600, en eftir það fæst nokkru skýrari mynd af hitabreytingum og hafískomum. Greining á þessum heimildum bendir til talsverðra sveiflna í veðurfari frá landnámi til vorra daga.
Lítill hafís virðist hafa verið undan ströndum Íslands frá um 1640 til um 1680. Á tímabilinu frá 1600 til 1850 virðist hafís hafa verið hvað mestur á níunda áratug 18. aldar, í byrjun 19. aldar og á fjórða áratug 19. aldar, en á tímabilinu 1840 til 1855 virðist nánast ekki hafa verið neinn hafís. Hafís færðist aftur í aukana eftir 1855 til um 1860, enda þótt hann virðist ekki hafa verið eins mikill og á fyrri hluta aldarinnar. Nokkur mikil hafísár komu aftur frá 1864 til 1872 og aftur á níunda áratug 19. aldar. Aftur á móti dró mjög hratt úr hafís við Íslandsstrendur eftir aldamótin 1900.
Þegar horft er til hitabreytinga má greina kuldaskeið bæði við upphaf og lok 17. aldar. Á milli er þó talsvert hlýrra skeið, frá um 1640 til 1670. Fyrstu áratugir 18. aldar voru mildir í samanburði við mikil kuldaskeið á tíunda áratug 17. aldar og aftur 1730–1750, en aftur hlýnaði nokkuð á sjöunda og áttunda áratugnum. Líklega var níundi áratugurinn kaldasta skeið 18. aldarinnar, en eldsumbrot áttu þátt í því. Upphaf 19. aldar, fjórði áratugurinn og níundi áratugurinn voru líka fremur köld skeið.
Astrid Ogilvie hefur mikið fengist við rannsóknir á loftslagi og áhrifum þess á samfélagið á Íslandi. Rannsóknir hennar núna beinast bæði að loftslagssögu og Norðurskautsfræðum. Hún var Nansen-prófessor í Norðurskautsfræðum við Háskólann Á Akureyri. Hún er núna vísindamaður við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri og Institute of Arctic and Alpine Research (INSTAAR) við University of Colorado.
Fyrirlestrar Miðaldastofu Háskóla Íslands eru öllum opnir. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.