
Föstudaginn 17. janúar mun Bergþóra Sigríður Snorradóttir verja ritgerð sína„Sílikonforðakerfi fyrir lyfjagjöf“ (Silicone matrices for controlled drug delivery). Andmælendur eru dr. Ulrich Schäfer, prófessor emeritus í lyfjagerðafræði frá háskólanum í Saarland í Þýskalandi og dr. Örn Almarsson aðstoðarforstjóri Moderna Therapeutics í Massachusetts í Bandaríkjunum
Leiðbeinandi var dr. Már Másson, prófessor, deildarforseti Lyfjafræðideildar Háskóla Íslands
Dr. Sesselja Ómarsdóttir, dósent og varadeildarforseti Lyfjafræðideildar stjórnar athöfninni.
Ágrip úr rannsókn
Markmið doktorsverkefnisins var að þróa sílikonforðakerfi fyrir bólgueyðandi lyf (NSAID lyf) og rannsaka efniseiginleika þeirra og lyfjalosun. Stærðfræðilegri líkanasmíð var beitt við hámörkun á kerfunum og slík líkön voru einnig notuð til að auka skilning á lyfjalosunareiginleikum forðakerfana. Lækningatæki og fjölliðuforðakerfi sem losa lyf eru áhugaverð til ýmsra nota, meðal annars í búnað sem sameinar stoðtækisverkun og lyfjagjöf í gegnum húð.
Niðurstöður sýndu að frásogshvatar gátu aukið losun díklófenaks úr forðakerfum í gegnum húð ásamt því að hjálparefnin sem notuð voru í húðtilraununum juku lyfjalosun margfalt. Tölulega líkanið sem var útbúið gat lýst því hvernig hægt væri að hafa áhrif á lyfjalosun með misjafnri dreifingu lyfs í marglaga sílikonforðalyfjaformi. Líkanið mætti aðlaga til að spá fyrir losun úr annars konar lyfjaformum og þannig gæti það nýst í þróun á forðalyfjaformum og fyrir lyfjagjöf gegnum hraðatakmarkandi himnu eða húð.
Um doktorsefnið
Bergþóra Sigríður Snorradóttir (f. 1981) lauk kandídatsprófi í lyfjafræði frá Lyfjafræðideild HÍ 2006. Bergþóra vann í hlutastarfi sem sérfræðingur í sérverkefnum hjá stoðtækjafyrirtækinu Össur hf. 2011–2013.
Foreldrar Bergþóru eru Jóhanna Arngrímsdóttir og Snorri Björgvin Ingason. Eiginmaður Bergþóru er Þráinn Arnar Magnússon og börn þeirra eru Magnús og Víkingur Snorri.