Clik here to view.

Lawrence Lessig, prófessor við Harvard háskóla, flytur opinn fyrirlestur við Háskóla Íslands um það hvernig lýðræðið hefur brugðist á undanförnum árum og hvaða von megi hafa um framtíð þess. Lessig fjallar um reynslu Íslendinga af vinnu við nýja stjórnarskrá og hvernig hún kunni að geta orðið leiðarljós fyrir framtíð lýðræðis í heiminum.
Fyrirlesturinn verður fluttur í Hátíðasal Háskóla Íslands, þriðjudaginn 25. október og hefst kl. 12. Hann er haldinn í boði Hugvísindasviðs og Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.
Lawrence Lessig er prófessor í lögfræði við Harvard háskóla í Bandaríkjunum. Hann hefur um árabil beitt sér fyrir lýðræðisumbótum í heimalandi sínu, einkum með beittri gagnrýni sinni á fjármögnun stjórnmálamanna. Í bók sinni Republic Lost. How Money Corrupts Congress and a Plan to Stop It segir hann vanda Bandarískra stjórnmála í hnotskurn birtast í lélegri stjórnsýslu og glötuðu trausti en hvorttveggja megi skýra með því sem hann nefnir „ósjálfstæðisspillingu“ – áhrifum þess að stjórnmálamenn eru háðir fjármagni hagsmunaaðila sem heldur þeim í fjötrum ósjálfstæðis. Lessig hefur beitt sér fyrir stjórnarskrárumbótum sem geti orðið til þess að leysa bandarísk stjórnmál úr þessum fjötrum og jafnframt hefur hann verið leiðandi í starfi grasrótarsamtaka sem vinna að því að vekja stjórnmálamenn og almenning til vitundar um hvernig spilling af þessu tagi grefur kerfisbundið undan stjórnmálum og þar með sjálfu lýðræðinu. Lessig hefur dvalið á Íslandi frá því í ágúst og tekið virkan þátt í umræðum um stjórnarskrárumbætur hér á landi.