
Kjellfrid Totland Hesthamar flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í umhverfis- og auðlindafræði. Heiti verkefnisins er Samband ferðamennsku og námuvinnslu: Tilviksrannsókn frá Grænlandi.
Ágrip
Sjálfstæði Grænlands frá Danmörku hefur verið stefnumál grænlenskra stjórnvalda síðastliðin ár. Fjárhagslegur stöðugleiki hefur verið álitinn forsenda þess að Grænland öðlist sjálfstæði og því hefur áhersla grænlenskra stjórnvalda nær eingöngu verið á uppbyggingu hverskyns iðnaðar og atvinnustarfsemi, þá oft án tillits til mögulegra neikvæðra afleiðinga sem atvinnugreinar geta haft hver á aðra. Fjárhagsáætlun ríkisstjórnarinnar er stöðug en samkvæmt spám þarf að auka hagvöxt á næstu árum ætli ríkið að standa áfram straum af kostnaði af þeirri þjónustu sem boðið er upp á. Stjórnvöld telja að ferðaþjónusta, námuvinnsla og fiskveiðar muni vera stoðir slíks hagvaxtar.
Þessari rannsókn er ætlað að varpa ljósi á viðhorf hagsmunaaðila innan ferðaþjónustu og námuvinnslu, til sambands þessara tveggja ólíku atvinnugreina, þá sérstaklega með tilliti til uppbyggingu ábyrgrar ferðaþjónustu. Tekin voru viðtöl við sex hagsmunaaðila og niðurstöður greininga á þeim voru svo paraðar saman við greiningu á mismunandi aðferðum sem lagðar hafa verið fram fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu og námuvinnslu.
Niðurstöður leiddu í ljós að ekki hefur verið hugað markvisst að tengslum námuvinnslu og ferðaþjónustu. Ljóst er að hagsmunaaðilar telja að greinarnar gætu haft bæði jákvæð og neikvæð áhrif á hvor á aðra. Báðar atvinnugreinar gætu haft hag af meiri samvinnu þar sem miklar fjarlægðir og lítt þróaðir innviðir eru sameiginleg áskorun. Færð eru rök fyrir því að stefnumótun stjórnvalda þurfi að taka tillit til tengsla ferðaþjónustu og námuvinnslu í ríkari mæli.
Leiðbeinendur: Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og Magnús Haukur Ásgeirsson, aðjúnkt við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Prófdómari: Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.