
Chutimon Muankaew ver doktorsritgerð sína í lyfjafræði, sem ber heitið: Sýklódextrínöragnir fyrir markbundna lyfjagjöf í augu (Cyclodextrin microparticles for targeted ocular drug delivery).
Andmælendur eru dr. Carmen Alvarez-Lorenzo, prófessor við Universidad de Santiago de Compostela og dr. Hanne Hjorth Tønnesen, prófessor við Háskólann í Ósló.
Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Þorsteinn Loftsson, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Einar Stefánsson, prófessor við Læknadeild, dr. Hákon Hrafn Sigurðsson, prófessor við Lyfjafræðideild, Nongluck Ruangwises, lektor við Mahidol University í Bangkok, og dr. Phatsawee Jansook, lektor við Chulalongkorn University í Bangkok.
Dr. Hákon Hrafn Sigurðsson, prófessor og deildarforseti Lyfjafræðideildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.
Ágrip af rannsókn
Doktorsverkefnið fjallar um hönnun augndropa sem auka flutning lyfja frá yfirborði augans inn í augað. Augndroparnir innihalda γ-sýklódextrin sem myndar vatnssæknar fléttur með torleysanlegum lyfjum og auka flutning lyfjasameinda að yfirborði augans. Aðgengi lyfja frá hefðbundnum augndropum inn í augað er venjulega aðeins um 3 til 5 prósent. Afgangurinn af lyfinu, eða allt að 97 prósent, frásogast út í hina almennu blóðrás líkamans þar sem það getur valdið ýmsum aukaverkunum. Markmið verkefnisins var að auka markbundna lyfjagjöf í augu, þ.e. auka það magn lyfs sem fer inn í augað og draga úr því magni lyfs sem fer til annarra hluta líkamans.
Sýklódextrín eru hringlaga fásykrungar sem líta út eins og örsmáir kleinuhringir (þvermál um 1,5 nm) með vatnssækið ytra yfirborð og fitusækið gat í miðju hringsins. Sýklódextrín mynda vatnsleysanlegar fléttur með mörgum fitusæknum og torleysanlegum lyfjum. Við fléttumyndunina sest fitusækinn hópur á lyfjasameindinni í gatið á sýklódextrínsameindinni. Rannsóknirnar sýndu að við vissar aðstæður var hægt að láta flétturnar hópast saman og mynda nanóagnir (þvermál um eða undir 200 nm) sem og smáar míkróagnir (þvermál 1 til 5 µm). Ögnunum var komið fyrir í augndropum þar sem þær mynduðu nanódreifur, en þær auka aðgengi lyfja frá yfirborði augans inn í augað. Í doktorsritgerðinni er því lýst hvernig þessar nanóagnir eru myndaðar, hvernig ýmis hjálparefni hafa áhrif á myndun nanóagnanna, kornastærð þeirra og stöðugleika. Einnig er lýst ýmsum eðlisefnafræðilegum rannsóknum sem gerðar voru á ögnunum og dreifum þeirra.
Um doktorsefnið
Chutimon Muankaew er fædd og uppalin í Thailandi. Hún lauk MS-námi í lyfjavísindum frá Kingston University í Bretlandi og þar áður BSc-gráðu í lyfjafræði frá Mahidol University í Thailandi. Chutimon innritaðist í doktorsnám í lyfjafræði árið 2013 en starfaði sem kennari við Siam University í Bangkok frá árinu 2010.