
Hörður Ingi Gunnarsson flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í líffræði. Heiti verkefnisins er Örvuð tjáning á örverudrepandi peptíðum í þekju og einkjörnungum.
Ágrip
Í þessu verkefni leit ég á áhrif glucocorticoid stera (GC) á tjáningu örverutrepandi peptíða auk þess sem ég skoðaði örvun PBA og bútyrats á tjáningu CAMP gensins og hvernig sú virkni fer í gegnum Vítamín D viðtakann (VDR). Niðurstöður okkar voru á þá leið að GC minnkar tjáningu á örverudrepandi peptíðum í lungnaþekju og einkjörnunga frumulínum og einnig í einkjörnungum fengnum úr blóði. Við sáum einnig að hægt var að vinna á móti þessari minnkuðu tjáningu með D vítamíni sem örvaði tjáningu CAMP gensins sem tjáir fyrir LL-37 peptíðinu. Þessi örvun vann á móti minnkuðu tjáningunni en tjáningin var þó minni heldur en ef eingöngu D vítamín var notað en engir sterar. Í hinum hluta verkefnisins skoðaði ég övun á tjáningu CAMP og HIF1A með D vítamíni, PBA og bútírati og tengsl þessarar örvunar við MAPK (mítógen virkjaður prótein kínasi). Þar fundum við að PBA og bútírat örvun er ekki eins þar sem breytingar á örvuninni við hindrun MAPK var ekki eins milli efnanna. Ég sýndi einnig að bútírat, PBA og vítamín D miðluð örvun á CAMP raskaðist í frumulínu þar sem reynt hafði verið að slá VDR út. Tölvulíking var notuð til þess að kanna hugsanlega bindingu bútírats og PBA í VDR til þess að sjá hvort að það gæti verið möguleiki að þessi efni væru bindlar fyrir viðtakann. Samkvæmt útreikningum forritsins eru efnin veikir bindlar en það er óljóst hvort að bindingin er nægjanlega sterk til að virkja viðtakann.
Leiðbeinendur: Guðmundur Hrafn Guðmundsson, Þórarinn Guðjónsson og Zophonías Oddur Jónsson
Prófdómari: Pétur Henry Petersen