
Námsbraut um kennslu í framhaldsskólum og Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs við Háskóla Íslands boða til opinna funda um rannsóknir á framhaldsskólastarfi. Málstofurnar verða haldnar í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð. Erindin eru að jafnaði um 20 mínútur og jafnlangur tími er ætlaður til umræðna. Erindin eru flutt á íslensku nema annað sé tekið fram.
Ásgrímur Angantýsson, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands heldur fyrirlestur undir yfirskriftinni: Íslenskt mál sem menningarauðmagn í framhaldsskólum.
Í erindinu verður varpað ljósi á viðhorf nemenda og kennara í framhaldsskólum til máls og málfræði með hliðsjón af kenningum um tungumálið sem menningarlegt auðmagn. Rýnt verður í viðtöl sem tekin hafa verið í tengslum við rannsóknarverkefnið „Íslenska sem námsgrein og kennslutunga“. Gögnin gefa vísbendingar um að ákveðnir kunnáttu- og færniþættir tengdir menningarlegum bakgrunni nemenda séu taldir mikilvægir og komi við sögu í námsmati í íslensku án þess að þeir séu markvisst á dagskrá í íslenskutímum.
Málstofan er haldin í samvinnu við Rannsóknarstofu í íslenskum fræðum og íslenskukennslu.
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.