
Námsbraut um kennslu í framhaldsskólum og Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs við Háskóla Íslands boða til opinna funda um rannsóknir á framhaldsskólastarfi. Málstofurnar verða haldnar í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð. Erindin eru að jafnaði um 20 mínútur og jafnlangur tími er ætlaður til umræðna. Erindin eru flutt á íslensku nema annað sé tekið fram.
Hafdís Ingvarsdóttir, prófessor emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands flytur fyrirlestur undir yfirskriftinni: „Ofboðslega mikið njörvað niður“. Viðhorf framhaldsskólakennara til kennsluhátta.
Fyrirlesturinn er hluti rannsóknarinnar Starfshættir í framhaldsskólum 2013–2016. Fjallað verður um viðhorf kennara í bóklegum greinum til nemendamiðaðra (e. learner-centred) kennsluhátta. Byggt er á 20 viðtölum og jafnmörgum vettvangsathugunum. Íslenskir framhaldsskólar hafa meira frelsi til að skipuleggja nám og kennslu en víða þekkist en það virðist almennt ekki hafa verið kennurum hvatning til að nýta það frelsi, m.a. með því að taka upp nemendamiðaðar aðferðir. Í fyrirlestrinum verður leitað skýringa kennara á þessu og þær skoðaðar í ljósi kenninga um þróun í starfi.
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.