
Föstudaginn 17. apríl ver Anna Helga Jónsdóttir doktorsritgerð sína í tölfræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið Þróun og prófun á opnu vefkennslukerfi í stærðfræði og tölfræði (Development and testing of an open learning environment to enhance statistics and mathematics education).
Andmælendur eru dr. Per B. Brockhoff, prófessor við Danmarks Tekniske Universitet, og dr. Robert C. delMas, dósent við University of Minnesota.
Leiðbeinandi var dr. Gunnar Stefánsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands.
Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Freyja Hreinsdóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og dr. Auðbjörg Björnsdóttir, forstöðumaður Kennslumiðstöðvar Háskólans á Akureyri.
Dr. Oddur Ingólfsson, prófessor og varadeildarforseti Raunvísindadeildar stjórnar athöfninni.
Ágrip af rannsókn
Efnistökum ritgerðarinnar má skipta í þrjá hluta. Í fyrsta hluta er rannsókn á gengi nýnema á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, Háskóla Íslands, á könnunarprófi í stærðfræði lýst. Sama prófið var lagt fyrir nýnema í upphafi misseris á árunum 2011-2014. Niðurstöður gefa til kynna að hátt hlutfall nemenda skortir grunnfærni í stærðfræði. Fervikagreining var notuð til að kanna hvaða breytur tengjast árangri nemenda á könnunarprófinu. Framhaldsskóli, kyn, ár könnunarprófs, hvenær nemendur voru síðast í stærðfræði í framhaldsskóla og hversu margar annir þeir höfðu verið í stærðfræði í framhaldsskóla, tengdust árangri á könnunarprófinu. Upplifun þeirra á hversu vel þeim gekk í stærðfræði í framhaldsskóla og hversu vel þeir eru undirbúnir undir frekara nám tengdust einnig árangri. Árangur á könnunarprófinu hafði hátt forspárgildi fyrir árangur nemenda í námskeiðum í stærðfræðigreiningu, sér í lagi meðal stærðfræði,- eðlisfræði,- og verkfræðinema.
Í öðrum hluta er þróun á opnu vefkennslukerfi í stærðfræði og tölfræði lýst. Kennslukerfið tutor-web er opið vefkennslukerfi sem þróað hefur verið við Háskóla Íslands. Í kerfinu er kennsluefni í stærðfræði, tölfræði og fleiri greinum aðgengilegt nemendum að kostnaðarlausu. Í kerfinu eru nú yfir 4000 æfingar í stærðfræði og tölfræði sem nemendur geta nýtt sér. Algrím sem úthlutar spurningum til nemenda ásamt einkunnaralgrími hafa verið þróuð með það að markmiði að auka kunnáttu nemenda sem nota kerfið.
Í þriðja hluta má lesa um samanburðarrannsókn á lærdómi nemenda sem vinna í vefkennslukerfinu og þeirra sem vinna hefðbundna heimavinnu í formi dæmaskila. Nemendur stóðu sig að meðaltali betur á prófunum eftir að hafa unnið í vefkennslukerfinu en þegar þeir skiluðu skriflegum verkefnum.
Um doktorsefnið
Anna Helga Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 2. apríl 1979. Hún lauk BS-gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2003 og meistaragráðu í hagnýttri stærðfræði frá Danmarks Tekniske Universitet (DTU) árið 2005. Anna Helga hefur unnið við rannsóknir og kennslu í DTU og HÍ síðan 2006.