
Dr. Michael Bregnsbo, lector við Syddansk Universitet, Odense flytur minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar 2014 á vegum Sagnfræðistofnunar í stofu 101 í Odda föstudaginn 21. nóvember kl. 15. Fyrirlesturinn nefnir hann Upplausn heimsveldis: Danska ríkið í Napóleonsstyrjöldunum. Fyrirlesturinn fer fram á ensku.
Napóleonsstyrjaldir höfðu afdrifaríkar afleiðingar fyrir danska ríkið: stórskotaárás Breta á Kaupmannahöfn 1807, ríkisgjaldþrotið 1813 og missir Noregs 1814 urðu til þess að draga svo úr mætti Danaveldis að tilvist Danmerkur sem sjálfstætt ríki var í húfi.
Friðrik VI vék ekki frá bandalagi sínu við Napóleon og ósigur Napóleons varð þarafleiðandi einnig ósigur konungsins. Af hverju hélt Friðrik tryggð við Napóleon? Var þetta þrjóska eða lágu hér að baki misskildar hugmyndir um heiður eins og almennt hefur verið talið?
Í þessum fyrirlestri verður fjallað um utanríkisstefnu Friðriks VI og hugmyndir hans skoðaðar í nýju ljósi. Á þessum tíma var Danmörk heimsveldi – Danaveldi, en hin hefðbundna túlkun greinir aðeins Danmörku eins og eitt ríki. Í fyrirlestrinum verður lögð áhersla á að skoða Danmörku sem heimsveldi. Aðeins þannig er hægt að skilja þær ákvarðanir sem Friðrik tók í utanríkismálum bæði varðandi Napóleonsstríðin sérstaklega og söguna almennt.