
Sævar Ingþórsson ver doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum er nefnist: Hlutverk EGFR-viðtakafjölskyldunnar í eðlilegumog illkynja brjóstkirtli - Modeling the role of the EGFR receptor family in the normal and malignant breast gland.
Andmælendur eru dr. Senthil Muthuswamy, dósent við Cold Spring Harbor Laboratory í New York, og dr. Þórunn Rafnar, verkefnastjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Sameiginlegir leiðbeinendur og umsjónarkennarar í verkefninu voru dr. Magnús Karl Magnússon, prófessor og deildarforseti Læknadeildar Háskóla Íslands, og dr. Þórarinn Guðjónsson, prófessor við sömu deild. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, dr. Bjarni A. Agnarsson, prófessor við sömu deild, og dr. Claus Storgaard Sørensen, dósent við Háskólann í Kaupmannahöfn.
Dr. Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor og varaforseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni.
Ágrip
Stofnfrumur í brjóstkirtlinum, ásamt samskiptum við nærliggjandi bandvef, gera honum kleift að ganga í gegnum endurtekna hringrás frumufjölgunar, sérhæfingar og frumudauða sem tengist meðgöngu og mjólkurframleiðslu. Stofnfrumur í brjóstkirtli hafa á undanförnum árum verið tengdar myndun brjóstakrabbameina. EGFR-viðtakafjölskyldan gegnir mikilvægu hlutverki í eðlilegum brjóstkirtli, en einnig í krabbameinsmyndun. Lokastig krabbameinsframvindu er myndun meinvarpa, þar sem frumur losna frá æxlinu og mynda meinvörp í öðrum líffærum. Nokkrar rannsóknir hafa sýnt fram á beint hlutverk æðaþels í þroskun, meðal annars með því að ýta undir bandvefsummyndun þekjufruma (epithelial to mesenchymal transition, EMT). Markmið þessa doktorsverkefnis var að þróa þrívítt ræktunarlíkan til að kanna samspil æðaþels og þekjuvefjar í brjóstkirtli. Ennfremur var markmiðið að nota þetta ræktunarlíkan til að kanna hlutverk EGFR og ErbB2 í þroskun og sérhæfingu eðlilegra og illkynja brjóstaþekjufruma. Niðurstaða verkefnisins er að æðaþel getur haft mikil áhrif á svipgerð þekjuvefsfruma í þrívíðri rækt, ennfremur að EGF viðtakafjölskyldan, sérstaklega EGFR gegnir mjög mismunandi hlutverkum í frumum, og getur jafnvel þjónað hlutverki krabbameinsbælipróteins, en hingað til hefur EGFR verið álitinn hvetja krabbameinsmyndun. Líkanið sem við höfum þróað má nota til áframhaldandi rannsókna á samspili þessara viðtaka í klínísku samhengi.
Um doktorsefnið
Sævar er fæddur árið 1981 og er uppalinn Selfyssingur. Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 2001 og BS-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands árið 2006. Sævar lauk MS-gráðu í líf og læknavísindum frá Læknadeild Háskóla Íslands þremur árum síðar og innritaðist í doktorsnám sama ár, 2009. Sævar er búsettur í Reykjavík og á eina sex ára dóttur, Bogeyju Sigríði.