
Fyrirlesari:Ólafur Karl Nielsen, vistfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands.
Höfundur hefur rannsakað vistfræði fálka og rjúpu frá 1981 á Norðausturlandi. Á rannsóknasvæðinu eru 83 hefðbundin fálkaóðul. Óðulin eru heimsótt á hverju ári til að meta ábúð, viðkomu og fæðu fálkanna. Einnig eru rjúpur taldar. Fæðuval fálkans er sérhæft og aðalfæða hans á öllum árstímum er rjúpa. Stærð rjúpnastofnsins tekur reglubundnum breytingum, hann rís og hnígur og um 11 ár eru á milli hámarksára, munur á mesta og minnsta þéttleika getur verið allt að 25-faldur. Fálkastofninn sýnir hliðstæðar sveiflur og rjúpnastofninn en með 3-4 ára hniki, rjúpan rís fyrst og síðan fálkinn á eftir. Reglubundnar stofnsveiflur hliðstæðar og hjá rjúpunni á Íslandi eru þekktar hjá ýmsum tegundum grasbíta á norðlægum slóðum. Margir fræðimenn hallast að því að aflvaka slíkra sveiflna sé að finna innan fæðuvefsins og þá annað hvort þrepi neðar en grasbíturinn (jurtir) eða þrepi ofar (rándýr, sníkjudýr). Rætt verður um hvort fálkinn sé mögulegur aflvaki stofnsveiflu rjúpunnar.