Quantcast
Channel: Viðburðir við HÍ - Events at the University of Iceland
Viewing all articles
Browse latest Browse all 3012

Líðan framhaldsskólanemenda Um námserfiðleika, áhrifaþætti og ábyrgð samfélags

$
0
0
Hvenær hefst þessi viðburður: 
24. október 2014 - 13:00
Staðsetning viðburðar: 
Nánari staðsetning: 
Stofa 101
Háskóli Íslands

Málstofa Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd og Félagsráðgjafardeildar

Sigrún Harðardóttir fjallar um doktorsritgerð sína

Líðan framhaldsskólanemenda

Um námserfiðleika, áhrifaþætti og ábyrgð samfélags

Markmið rannsóknarinnar var að kanna tengsl sálfélagslegrar líðanar við upphaf náms í framhaldsskóla og námsframvindu. Leitað var svara við eftirfarandi meginspurningum: Hvert er samspil sálfélagslegrar líðanar við upphaf náms í framhaldsskóla og námsframvindu meðal nemenda á almennri braut borið saman við aðra nemendur? Hvaða þættir stuðla að velgengni nemenda sem stríða við námserfiðleika?

Rannsóknin sneri að þremur árgöngum nemenda sem hófu nám í fram­haldsskóla haustin 2005, 2006 og 2007 og náði hún til 270 nemenda. Við upphaf náms var lagður fyrir alla nemendur ASEBA‒sjálfsmatslisti (Achenbach System of Empirically Based Assessment), sem mælir sálfélagslega líðan. Að fjórum og hálfu ári liðnu frá upphafi náms var aftur haft samband við þessa nemendahópa í gegnum síma og upplýsinga aflað um námsframvindu þeirra og ýmsa aðra þætti er snertu félagslega stöðu þeirra. Út frá niðurstöðum símaviðtalskönnunar voru 10 nemendur sem áttu við námserfiðleika að stríða, en höfðu lokið námi í framhaldsskóla, valdir til þátt­töku í eigindlegri rannsókn. Til að kanna sýn yfirvalda til nemenda sem eiga í námserfiðleikum, út frá nýrri skólastefnu sem mörkuð var með lögum um framhaldsskóla árið 2008, var innihaldsgreiningu beitt á tvö stefnu­mót­andi skjöl frá menntamálaráðuneyti ásamt umfjöllun um framhaldsskólann í greinum er birtust í dagblöðum á árunum 2005–2008 í tengslum við aðdraganda að setningu nýrra laga.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að um samspil sálfélagslegrar líðanar og námsframvindu sé að ræða. Þannig sýna niðurstöður að nemendur sem eiga við námsvanda að etja búa við lakari sálfélagslega líðan í upphafi náms en aðrir nemendur og detta frekar út úr námi. Meirihluti þeirra nemenda sem hófu nám á bóknámsbrautum hafði lokið námi í framhaldsskóla fjórum og hálfu ári eftir að þeir hófu nám, eða 72%, en einungis 16% þeirra nemenda sem hófu nám á almennri braut. Þá sýna niðurstöður að góð tengsl við foreldra, ásamt skilningi innan skólans, hafa áhrif á uppbyggingu seiglu meðal nemenda sem eiga við námserfiðleika að stríða og hún stuðlar síðan að jákvæðari námsframvindu þeirra. Niðurstöðurnar í heild vekja siðferðilegar spurningar um jafnan rétt til náms í hinu íslenska skólakerfi og hvort nemendur með námserfiðleika búi í raun við jöfn tækifæri til menntunar.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 3012