
Ómar Ingi Jóhannesson ver doktorsritgerð sína, frá Sálfræðideild Háskóla Íslands:
„Miðlæg-hliðlæg ósamhverfa í skilvirkni augnstökka og áhrif líkindamöndls með lendingarstað á viðbragðstíma þeirra.“ - „Nasal-temporal asymmetries and landing point probability manipulations of saccadic eye movements.“
Andmælendur eru dr. Þór Eysteinsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands og dr. Heiner Deubel, prófessor við Ludwig-Maximilians-Universität í Hollandi.
Leiðbeinandi var Árni Kristjánsson, dósent við Sálfræðideild Háskóla Íslands, sem sat í doktorsnefnd ásamt dr. H. Magnúsi Haraldssyni, dósent við Læknadeild Háskóla Íslands og dr. Jay Edelman, dósent við The City University of New York.
Dr. Sigurður J. Grétarsson, prófessor og forseti Sálfræðideildar, stjórnar athöfninni.
Ágrip
Taugafræði augnhreyfinga er nokkuð vel þekkt og framheilinn leikur stórt hlutverk í stjórn augnhreyfinga. Eiginleikar augnhreyfinga hjá fólki með geðklofa, athyglisbrest, lesblindu, Parkinsons veiki, Tourettes heilkenni, Huntingtons veiki og áráttu og þráhyggju eru frábrugðnir eiginleikum augnstökka hjá heilbrigðu fólki. Það sama á við um virkni í framheila. Miðlæg-hliðlæg líffræðileg ósamhverfa er vel þekkt og finnst bæði í sjónu og sjóntaug. Þéttni hnoðfruma í sjónu minnkar hraðar í átt að gagnauga en í átt að nefi og taugatengingar frá miðlægri sjónu að efri hólum og hliðlægu hnélíki eru öflugri en frá hliðlægri sjónu. Vegna þess að miðlæg-hliðlæg ósamhverfa er þekkt bæði í virkni athygli og líffræðilegum þáttum er rökrétt að búast við að hún sé einnig til staðar í eiginleikum augnhreyfinga. Að auki eru nokkuð góð rök fyrir því að möndl með líkur á því hvar áreiti augnsökka birtist geti haft áhrif á viðbragðstíma þeirra.
Í tveimur rannsóknum rannsökuðum við viðbragðstíma, nákvæmni og hámarkshraða augnstökka. Niðurstöður okkar sýna að miðlæg-hliðlæg ósamhverfa finnst ekki í viðbraðgstíma augnstökka og að hún er mjög óveruleg í nákvæmni þeirra. Aftur á móti er ósamhverfan mjög greinileg í hámarks hraða augnstökka og hraðinn mun meiri í átt að hliðlægu en að miðlægu áreiti. Við teljum okkur hafa mjög góð rök fyrir því að það sé líffræðileg ósamhverfa sem veldur ósamhverfunni í hámarkshraða.
Í þriðju rannsókninni rannsökuðum við meint áhrif af líkindamöndli með staðsetningar áreita með áherslu á áhrif möndlsins á viðbragðstíma and- og meðstökka. Það var ekki fyrr en í tilraun þar sem lóðrétt og lárétt, and- og meðstökk,voru samofin við sjónleitarverkefni að líkindamöndlið fór að hafa áhrif og munur á viðbragðstíma and- og meðstökka minnkaði. Vegna þess að áhrif líkindamöndlsins komu ekki fram fyrr en í mjög flóknu verkefni teljum við ljóst að möndlið hefur ekki áhrif á undirbúning augnstökka sem slíkra heldur hafi það áhrif á þá þætti sem lúta að því að velja (eða finna) markáretið og taka ákvörðun um hvort augnstökkið þarf að vera and- eða meðstökk, lóðrétt eða lárétt.
Um doktorsefnið
Ómar I. Jóhannesson fæddist árið 1956. Hann lauk landsprófi frá Gagnfræðaskóla Stykkishólms vorið 1972 og sveinsprófi í skipasmíði frá Iðnskóla Snæfellsness og Skipavik hf. í Stykkishólmi árið 1976. Vorið 1980 lauk Ómar 2. stigs prófi (1500 kw réttindi) frá Vélskóla Íslands. Stúdentsprófi lauk Ómar vorið 2007 þegar hann útskrifaðist frá Öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð. Haustið 2007 hóf Ómar BS nám í sálfræði við Sálfræðideild Háskóla Íslands og lauk því námi í lok árs 2009. Meistaranám við sömu deild hóf Ómar árið 2010 og lauk því í lok árs 2011. Ómar hóf doktorsnám við HÍ í janúar 2012.
Ómar vann aðeins fá ár við iðn sína, skipasmíðina, en var lengst af yfirvélstjóri til sjós og lengst sem yfirvélstjóri á Breiðafjarðarferjunni Baldri eða í 17 ár. Ómar hefur einnig fengist við viðgerðir á vinnuvélum og vörubílum. Ómar er fráskilinn og á tvö uppkomin börn.