Hvenær hefst þessi viðburður:
20. júní 2014 - 10:00 til 11:30
Staðsetning viðburðar:
Nánari staðsetning:
Hátíðarsalur

Hermína Gunnþórsdóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Uppeldis- og menntunarfræðideild, Menntavísindasviði Háskóla Íslands:
„Kennarinn í skóla án aðgreiningar. Þekking, skilningur og hugmyndir kennara um menntun án aðgreiningar. “ föstudaginn 20. júní kl. 10:00 í Hátíðasal Háskóla Íslands
Andmælendur eru dr. Geert Van Hoove prófessor, Ghent háskóla í Belgíu, og dr. Elizabeth Kozleski, prófessor, Kansas háskóla, Bandaríkjunum.
Leiðbeinendur voru dr. Dóra S. Bjarnason, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Auk þess sat í doktorsnefndinni dr. Julie Allan frá Sterling Háskóla, Skotlandi.
Dr. Hanna Ragnarsdóttir, prófessor og deildarforseti Uppeldis- og menntunarfræðideildar við Menntavísindasvið, stjórnar athöfninni
Allir velkomnir
Föstudaginn 20. júní 2014, kl. 10:00 fer fram doktorsvörn frá Uppeldis- og menntunarfræðideild við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Þá ver Hermína Gunnþórsdóttir doktorsritgerð sína Kennarinn í skóla án aðgreiningar. Þekking, skilningur og hugmyndir kennara um menntun án aðgreiningar The teacher in an inclusive school Exploring teachers’ construction of their meaning and knowledge relating to their concepts and understanding of inclusive education
Um verkefnið
Kennarinn í skóla án aðgreiningar. Þekking, skilningur og hugmyndir kennara um menntun án aðgreiningar
Doktorsritgerð þessi greinir frá rannsókn á hugmyndum grunnskólakennara um hugmyndafræðina að baki skóla án aðgreiningar og hvernig hún endurspeglast í faglegum starfsvenjum þeirra og sýn á menntun.
Megintilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvernig menning og opinber menntastefna orkar á og mótar hugmyndir og skilning kennara á kennarahlutverkinu í skólum sem ætlað er að starfa í anda skóla án aðgreiningar. Rannsóknarspurning verksins í heild lýtur að því hvernig kennarar móta skilning sinn og þekkingu í tengslum við hugmyndir sínar um skóla án aðgreiningar.
Gögnin eru eigindleg viðtöl, kennsluskráning (teaching logs), opinber skjöl, svo sem lög, reglugerðir og námskrár, og fjölmiðlaefni (blaðagreinar). Félagslegum mótunarkenningum og sjónarhorni póststrúktúralisma var beitt við greiningu gagnanna. Niðurstöðurnar eru kynntar í einum bókarkafla og tveimur tímaritsgreinum, sem hver um sig visar til afmarkaðs þema og viðeigandi rannsóknarspurninga.
Fyrsta þemað fjallar um hvernig íslenskir og hollenskir kennarar móta þekkingu, skilning og hugmyndir um kennarann í skóla sem stefnir að því að verða án aðgreiningar. Þema tvö fjallar um orðræðu íslenskra kennara um skóla án aðgreiningar – möguleika, takmarkanir og tengsl við hina opinberu orðræðu. Í þema þrjú er áhersla á faglega starfshætti kennara og sjónarmið í tengslum við hugmyndir þeirra um skóla án aðgreiningar.
Rannsóknin er fræðilegt og hagnýtt framlag til áframhaldandi umræðu um skóla án aðgreiningar, eðli slíks skóla og umfang. Vonast er til að þessi rannsókn varpi ljósi á möguleika og mótsagnir skólastarfs án aðgreiningar og verði þannig til hagsbóta fyrir kennara, foreldra, fræðafólk og stefnumótendur.
---------
Rannsóknin var styrkt af RANNÍS – Rannsóknarnámssjóði og Rannsóknasjóði Háskólans á Akureyri.