
Mánudaginn 17. mars n.k. heldur Gunnar F. Guðmundsson fyrirlestur í boði Guðfræðistofnunar í stofu 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn hefst kl. 11:40.
Yfirskrift fyrirlestursins er: Pater Jón Sveinsson S.J. Kennimaður með brostna köllun?
Rithöfundurinn Jón Sveinsson er þekktur bæði hér á landi og víðar um lönd fyrir bækur sínar um ævintýradrenginn Nonna, en þær eru að mestu leyti byggðar á ævi hans sjálfs. Þó var hann öðrum þræði dulur um sjálfan sig og fór með það næstum sem feimnismál að hann væri kaþólskur prestur í reglu Jesúíta. Í fyrirlestrinum verður sagt frá því hvernig höfundur ævisögu Jóns Sveinssonar reyndi að skilja þennan mann sem jafnvel nánustu reglubræður hans sögðu vera „undur að manni“.
Gunnar F. Guðmundsson lauk cand.mag.-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1979 og prófi í uppeldis- og kennslufræðum frá sama skóla árið 1982. Hann hefur starfað sem framhaldsskólakennari, við skjalavörslu og sagnfræðirannsóknir. Eftir hann liggja allmargar greinar og bækur. Má þar m.a. nefna Íslenskt samfélag og Rómakirkja, sem er annað bindi í ritsafninu Kristni á Íslandi, auk ævisögu Jóns Sveinssonar – Nonna, sem hann hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin 2012 fyrir.
Fyrirlesturinn er öllum opinn.