
Háskóli Íslands býður landsmönnum á öllum aldri í heimsókn laugardaginn 1. mars 2014 þar sem í boði verða ótal viðburðir, kynningar og uppákomur sem sýna vísindin í litríku og lifandi ljósi.
Gestir geta kynnt sér fjölbreytt námsframboð háskólans, starfsemi og þjónustu, skoðað rannsóknastofur, tæki, búnað og húsakynni. Á staðnum verða vísindamenn og nemendur úr öllum deildum skólans sem svara spurningum um allt milli himins og jarðar – eða því sem næst. Námsráðgjafar gefa góð ráð og kynnt verður sú margþætta þjónusta og litríka félagslíf sem stúdentum Háskóla Íslands stendur til boða.
Námskynningar á vegum einstakra fræðasviða Háskóla Íslands verða á eftirtöldum stöðum:
Félagsvísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð
Heilbrigðisvísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð
Hugvísindasvið: Aðalbygging
Menntavísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð
Verkfræði- og náttúruvísindasvið: Askja.
Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri kynna einnig nám sitt á Háskólatorgi, 1. hæð. Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst kynna námsframboð sitt í húsakynnum HR.
Sprengjugengið landsfræga verður með sýningar og Vísindasmiðja Háskóla Íslands í Háskólabíói verður einnig opin á Háskóladaginn.
Nánari upplýsingar um dagskrá Háskóladagsins verða gefnar síðar.
Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.