Clik here to view.

Yngvi Harðarson flytur erindi á málstofu Hagfræðideildar undir yfirskriftinni Leiðandi hagvísir fyrir Ísland.
Samsettir leiðandi hagvísar eru vísitölur sem hreyfast í aðdraganda breytinga á efnahagsástandi. Slíkar vísitölur eru gagnlegar við gerð skammtímaspár um efnahagsframvindu. Meginmarkmiðið með gerð leiðandi hagvísis er að hjálpa til við að sjá fyrir viðsnúning í efnahagsumsvifum en vandasamt hefur þótt að spá fyrir um slíkt með hefðbundum þjóðhagslíkönum.
Hugmyndin að baki leiðandi hagvísi er sú að framleiðsla hefur aðdraganda. Hagvísirinn er reiknaður á grundvelli þátta sem mælast í upphafi framleiðsluferilsins og/eða veita vísbendingar um eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Til að unnt sé að auka framleiðslu þarf t.d. að afla aðfanga og stofna til fjárfestinga.
Vísitölur leiðandi hagvísa hafa verið reiknaðar fyrir helstu iðnríki um áratugaskeið. Upphafið má rekja til rannsókna Wesley Mitchell og síðar Arthur Burns á vegum NBER í BNA. Í dag eru leiðandi hagvísar reiknaðir fyrir helstu iðnríki af ýmsum aðilum, opinberum aðilum, einkafyrirtækjum, samtökum og alþjóðastofnunum s.s. OECD.
Aðferðafræði OECD við útreikning leiðandi hagvísa er vönduð og vel skjöluð. Leiðandi hagvísir Analytica er byggður á þeirri aðferðafræði og er ætlað að gefa vísbendingu um efnahagsumsvif að u.þ.b. sex mánuðum liðnum en megintilgangurinn er að vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum.
Yngvi Harðarson er hagfræðingur og framkvæmdastjóri Analytica, fyrirtækis sem veitir áhættu- og fjárfestingaráðgjöf.