Hvenær hefst þessi viðburður:
9. júní 2017 - 13:00
Staðsetning viðburðar:
Nánari staðsetning:
Blásalir á 7. hæð Landspítala Fossvogi

„Staða rannsókna, ný styrkveiting National Institutes of Health (NIH) og framtíðarsýn“ er yfirskrift fundar um rannsóknarsamstarf Landspítala, Háskóla Íslands og Háskólans í Pennsylvaníu.
Frá árinu 2001 hefur verið formlegt samstarf um svefnrannsóknir milli Háskólans í Pennsylvaniu (PENN), Landspítala og Háskóla Íslands undir stjórn prófessoranna Allan I. Pack og Þórarins Gíslasonar. National Institute of Health (NIH) hefur áður styrkt verkefni rannsóknarhópsins i tvígang til 5 ára í hvert sinn. Hlutur Íslands í þessum tveimur verkefnum var alls um 2,5 milljónir dollara. Fyrsti NIH styrkurinn var til rannsókna á erfðum og eðli kæfisvefns en sá síðari til þess að meta samspil hjarta- og æðasjúkdóma í kæfisvefni.
Nú hefur NIH enn á ný ákveðið að styrkja verkefni rannsóknarhópsins til næstu fimm ára og verður hlutur Íslands nú rúmar 1,3 milljónir dollara. Rannsóknarverkefnið sem hlýtur styrk núna mun kanna hvernig blóðþrýstingssvörun breytist samhliða meðferð með svefnöndunartæki og verður leitað erfða- og lífeðlisfræðilegra skýringa á mismunandi blóðþrýstingssvörun einstaklinga með kæfisvefn. Einnig verður þáttur einstaklingsbundins breytileika í gerð og starfsemi öndunarvegar kannaður með segulómskoðun og lífeðlisfræðilegum mælingum í svefni.
Það er því ljóst að um gríðarlega mikilvæga fjárveitingu er að ræða sem skiptir miklu fyrir íslenskt vísindastarf. Á þessum tímamótum er fundurinn haldinn á Landspítala Fossvogi, þar sem farið verður yfir stöðu svefnrannsókna á Íslandi og fyrirhuguð verkefni kynnt stuttlega. Léttar veitingar verða í boði. Aðalerindið heldur Prof. Allan I Pack og fjallar það almennt um nýja nálgun í læknisfræði við greiningu og meðferð.
Fundarstjóri: Hlíf Steingrímsdóttir, framkvæmdarstjóri lyflækningasviðs Landspítala.
13:00 Fundur settur - Hlíf Steingrímsdóttir
13:05 Ávarp - Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands
13:10 What is Precision Medicine? An Overview - Allan I. Pack
13:50 Samstarf við PENN / NIH - staða rannsókna. Þórarinn Gíslason
14:05 Háþrýstingur i kæfisvefni - Bryndís Benediktsdóttir
14:15 Svefnháðar öndunartruflanir - hvað aðskilur sjúka frá heilbrigðum? Erna Sif Arnardóttir
14:30 Svefnleysi og kæfisvefn - samspil sjúkdóma og áhrif á meðferð Erla Björnsdóttir
14:40 Umræður og léttar veitingar
Allir velkomnir