
Þriðjudaginn 11. Apríl kl. 12 flytur Íris Ellenberger erindi í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins. Íris er nýdoktor við sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Hún leggur stund á rannsóknir á sögu kynverundar á Íslandi og sögu fólksflutninga með áherslu á samskipti, átök og samblöndum ólíkra menningarkima í íslensku þéttbýli.
Við upphaf 20. aldar var Reykjavík gjarnan nefndur „danskur bær“. Þar bjó nokkuð af fólki af erlendum uppruna sem setti sterkan svip á bæjarlífið og hafði talsverð áhrif á tísku, tungutak, verslun, iðnað og svip bæjarins. Stærsti hópur erlendra manna á Reykjavík kom frá Danmörku og höfðu stjórnmálatengsl landanna tveggja mest um það að segja. Danir stóðu vel að vígi í bæjarsamfélaginu og gátu sumir notfært sér tengsl sín við upprunalandið eða menntun og þekkingu sem vantaði á Íslandi.
Í erindinu verður fjallað um veruleika fólks af dönskum uppruna í Reykjavík við upphaf 20. aldar út frá hugmyndum um aðlögun og þverþjóðleika. Greint verður frá áhrifum þeirra á daglegt líf í bænum sem og áhrifum bæjarbragsins á hina dönsku íbúa. Loks verður fjallað um samfélagsbreytingar á fyrstu áratugum 20. aldarinnar sem takmörkuðu mjög getu Dana til að láta að sér kveða í íslensku samfélagi og drógu úr áhrifum þeirra á nærumhverfi sitt.
Fyrirlesturinn er sjötti í röð hádegisfyrirlestra Þjóðminjasafnsins og er skipulagður í tengslum við sýninguna Ísland í heiminum, heimurinn í Íslandi.