
Allir velkomnir: Þátttökugjald er kr. 2.000,- sem greitt er við innganginn og er jafnframt árgjald NAF.
Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum NAF fer fram málþing í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands þar sem fjallað verður um hlutverk opinberra starfsmanna í lýðræðisumræðu.
Jón Ólafsson, heimspekingur og prófessor á Hugvísindasviði HÍ, heldur erindi sem ber heitið: Lýðræði, siðferði og tjáningarfrelsi. Í erindinu mun Jón fjalla um siðferðileg álitamál frjálsrar, opinnar og óheftrar samfélagsumræðu, hvers vegna hún er mikilvæg og hvers konar takmarkanir á tjáningarfrelsi geti verið eðlilegar eða nauðsynlegar.
Að loknu erindi Jóns fara fram pallborðsumræður. Þátttakendur í pallborði eru: Eva Marín Hlynsdóttir, lektor í stjórnsýslufræðum við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Trausti Fannar Valsson, dósent í stjórnsýslurétti við lagadeild Háskóla Íslands, og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans.
Fundarstjóri: Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Dagskrá:
Kl. 16:30 – Aðalfundur NAF.
Kl. 16:45 – Erindi hefst.
Kl. 18:00 – Umræðum lýkur.
-----------------------------------------
Norræna stjórnsýslusambandið – NAF (Nordisk Administrativt Forbund) var stofnað árið 1918 til að vera vettvangur fyrir samstarf norrænna fræðimanna og embættismanna við stjórnsýslu og dómstörf. Sambandið samanstendur af deildum Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Íslands og halda landsdeildirnar uppi öflugu starfi hver í sínu landi. Deildirnar standa í sameiningu að útgáfu Nordisk Administrativt Tidsskrift (NAT) og halda allsherjarmót Norræna stjórnsýslusambandsins á þriggja ára fresti. Mótið var síðast haldið í Stokkhólmi fyrir tveimur árum þar sem komu saman vel á annað hundrað norrænir embættismenn og fræðimenn og ræddu um hvernig bæta mætti skilvirkni í stjórnsýslunni. Mótið verður næst haldið í Reykjavík á hundrað ára afmæli sambandsins árið 2018.