
Árni Einarsson dýravistfræðingur, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn og gestaprófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ flytur erindi Líffræðistofu þessa vikuna.
Fyrirlesturinn nefnist "forngarðarnir miklu, byggðamynstur í nýju landi".
Í Þingeyjarsýslum finnast um 700 km af eldfornum girðingum, langflestar byggðar úr torfi. Garðlögin eru frá fyrri hluta Þjóðveldisaldar, um 950–1100. Girðingarnar voru samhangandi allt frá Mývatni og út á Tjörnes. Þær girtu byggðina af og hólfuðu hana niður og gefa fágæta mynd af byggðinni við upphafið á miklu breytingaskeiði Íslandssögunnar. Útbreiðsla og þéttleiki bæja var mun meiri á þessum tíma en síðar varð. Girðingarnar voru þá, eins og nú til að hefta för búfjár, en túlkun kerfisins sem þær mynda er vandkvæðum bundin því að engar heildstæðar kenningar eru til um girðingamynstur. Talsvert gagn má þó hafa af kenningum atferlisvistfræðinnar um helgun landsvæða, því að girðingar hafa tilhneigingu til að fylgja landamerkjum. Landamerkjum verður best lýst með stoð í vistfræðirannsóknum á landnámi þar sem samkeppni ríkir um jarðnæði og landnemar leitast við að eyða sem minnstum tíma í að verjast ágangi. Byggðamynstur sem skapast við slíkar aðstæður er bæði fyrirsjáanlegt og reglulegt og fer mest eftir landslagi. Auk merkjagarða voru garðar hlaðnir til að hólfa niður bústofna og vernda slægjulönd.
Árni Einarsson lauk doktorsprófi frá Aberdeenháskóla, Skotlandi 1975, sem byggðist á rannsóknum á árlegu landnámi fugla á varpstöðvum. Árni hefur unnið að ýmsum rannsóknum á vistfræði Mývatns. Einnig hefur hann stundað rannsóknir á sviði fornvistfræði og tengdum greinum, m.a. á fornaldargarðlögum og öðrum minjum í Þingeyjarsýslum og túlkun fornrita.
Dagskrá fyrirlestra líffræðistofu vorið 2017.
Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.