
Viðskiptasmiðjan Startup Energy Reykjavik fjármagnar og styður við verkefni og fyrirtæki í orkutengdum iðnaði og þjónustu. Opnað verður fyrir umsóknir í viðskiptasmiðjuna fimmtudaginn 16. janúar og þá verður einnig haldinn opinn kynningarfundur um verkefnið.
Startup Energy Reykjavik stendur yfir frá 10. mars til 30. maí og verða 7 teymi valin til þátttöku sem hvert um sig mun vinna að sinni viðskiptahugmynd þar sem þeim verður lagt til fimm milljónir í hlutafé gegn hlutdeild í fyrirtækinu. Þá fá teymin 10 vikna þjálfun frá sérfræðingum víðs vegar úr atvinnulífinu og háskólaumhverfinu.
Leitað er eftir umsóknum á sviði viðhaldsþjónustu, sérfræðiþjónustu, véla, búnaðar og hugbúnaðar í orkutengdum iðnaði og tengdum greinum. Fyrirtæki á öllum stigum virðiskeðjunnar (framleiðsla, orkubreyting, dreifing, smásala) eiga erindi í Startup Energy Reykjavik.
Kynningarfundurinn um Startup Energy Reykjavik hefst klukkan 12 og í höfuðstöðvum Arion banka.