Quantcast
Channel: Viðburðir við HÍ - Events at the University of Iceland
Viewing all articles
Browse latest Browse all 3012

Doktorsfyrirlestur í jarðvísindum: Jöklunarsaga Drangajökuls

$
0
0
Hvenær hefst þessi viðburður: 
9. febrúar 2017 - 13:00
Staðsetning viðburðar: 
Nánari staðsetning: 
Hátíðarsalur
Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 9. febrúar flytur Skafti Brynjólfsson fyrirlestur um doktorsverkefni sitt í jarðvísindum. Verkefnið ber heitið Jöklunarsaga Drangajökuls (Dynamics and glacial history of the Drangajökull ice cap, Northwest Iceland).

Um er að ræða sameiginlega prófgráðu frá Háskóla Íslands og Vísinda- og tækniháskólanum í Þrándheimi (NTNU), Noregi og fór doktorsvörnin fram í Noregi þann 24. september 2015.

Leiðbeinendur voru dr. Ólafur Ingólfsson, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, dr. Anders Schomacker, prófessor við Háskólann í Tromsö og dósent við Háskólann í Kaupmannahöfn og dr. Achim Beylich, vísindamaður við Geological Survey of Norway. Í dómnefnd sátu dr. Bjørge Brattli, prófessor við jarðvísindadeild Norska vísinda- og tækniháskólans í Þrándheimi, dr. Nicolaj K. Larsen, dósent við jarðvísindadeild Árósaháskóla og prófessor við Háskólann í Kaupmannahöfn, Danmörku, og dr. Armelle Decaulne, jarðfræðingur á Laboratoire Géolittomer við Háskólann í Nantes, Frakklandi.

Andmælendur voru dr. Nicolaj K. Larsen, dósent við jarðvísindadeild Árósaháskóla, Danmörku og dr. Armelle Decaulne, jarðfræðingur á Laboratoire Géolittomer við Háskólann í Nantes, Frakklandi.

Ágrip af rannsókn

Í doktorsritgerðinni er fjallað um jöklunarsögu, sveiflur, setmyndanir og landmótun Drangajökuls. Einnig er fjallað um jöklunarsögu Vestfjarða, frá seinni hluta síðasta jökulskeiðs til nútíma. Aðalmarkmið rannsóknarinnar var að kanna betur sögu jöklunar og framhlaupa Drangajökuls.
Niðurstöður verkefnisins benda til þess að Vestfirðir hafi að langmestu leyti verið huldir jökli á hámarki síðasta jökulskeiðs, og jökulþekjan var undir sterkum áhrifum djúpra dala og fjarða Vestfjarðskagans. Þíðjöklar/ísstraumar flæddu tiltölulega hratt í fjörðum og dölum og rufu undirlag sitt. Ofarlega í fjallshlíðum eða yfir fjalllendi voru snörp skil í eiginleikum jökulsins. Þar uppi var gaddjökull ráðandi, sem flæddi hægt við innri aflögun og lét undirlag sitt að mestu ósnortið. Jökulhörfun hófst á hæstu fjöllum fyrir um 26 þúsund árum, jöklaleysingin var ósamstíga milli svæða, en fyrir um 14-15 þúsund árum voru hærri landsvæði og sumir dalir þegar orðnir íslausir á meðan aðrir firðir og dalir máttu þola ágang meginskriðjökla Drangajökuls þar til fyrir u.þ.b. 9 þúsund árum. 
Svæðið umhverfis Drangajökul einkennist af þunnum og grófum jökulruðningi í bland við ísmótaðar og veðraðar klappir en aðliggjandi dalbotnar eru að mestu huldir ármöl og áreyrum. Framhlaupsjöklar Drangajökuls náðu hámarksstærð hver í sínu lagi á árunum 1700-1846. Sögulegar heimildir og kortlagning á landmótunarsvæðum þeirra leiddi í ljós jökulgarða sem voru tvöfalt fleiri en áður skráð framhlaup Drangajökuls. Framhlaupahlé eru mjög óregluleg, 10-140 ár, en framhlaup virðast hafa verið einna tíðust á 19. öld og í upphafi 20. aldarinnar. Ekkert augljóst samband loftslags við eiginleika og tíðni framhlaupanna er greinanlegt. Í síðustu framhlaupum Drangajökuls var algengasta yfirborðsþynning söfnunarsvæðanna á bilinu 10-30 m á meðan þykknun leysingasvæðanna var mun breytilegri, eða um 10-120 m. Þrátt fyrir neikvæða meðalafkomu Drangajökuls það sem af er yfirstandandi kyrrfasa framhlaupsjöklanna, þykkna söfnunarsvæði þeirra að meðaltali um 0,5-0,7 m árlega. Uppbygging söfnunarsvæðanna ásamt um 1 m árlegri meðalþynningu leysingasvæðanna leiðir til brattara yfirborðs jökulsins og á 45-65 árum gæti yfirborðið orðið sambærilegt því sem var fyrir síðasta framhlaup jöklanna.
Rannsóknin hefur leitt í ljós allflókið mynstur íseiginleika, sveiflna og jöklunarsögu Drangajökuls. Vitneskju okkar um þessa þætti mætti auka með frekari kortlagningu, aldursgreiningu jökulmyndaðra landforma og jökulættaðs sets. Þannig mætti sannreyna þær niðurstöður sem hér eru kynntar og skerpa línur varðandi sögu og eiginleika síðasta jökulskeiðs. Gagnlegt gæti verið að beita fleiri aðferðum til að kanna eiginleika, eðli og sögu framhlaupsjöklanna í Drangajökli, t.d. langtímavöktun á veðri og afkomu jöklanna, og jarðeðlisfræðilegar kannanir á íseiginleikum, undirlagi jöklanna og landmótunarumhverfi þeirra gætu einnig aukið skilning okkar.

Um doktorsefnið

Skafti Brynjólfsson er fæddur 1982. Hann lauk stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 2003, BS-gráðu í jarðfræði frá Háskóla Íslands árið 2007 og MS-gráðu í jarðfræði frá sama skóla árið 2009. Skafti stundaði doktorsnámið bæði við Háskóla Íslands og Vísinda- og tækniháskólann í Þrándheimi þaðan sem hann lauk sameiginlegri doktorsgráðu. Skafti starfar nú sem jarðfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands. Hann er kvæntur Láru Betty Harðardóttir hjúkrunarfræðingi og eiga þau þrjú börn, Jóhönnu, Hörð Högna og Freyju. 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 3012