
Í tilefni af útkomu bókar Guðrúnar Johnsen, Bringing Down the Banking System; Lessons from Iceland, mun Guðrún flytja fyrirlestur um efni hennar í hátíðasal Háskóla Íslands.
Þriðja stærsta gjaldþrot sögunnar varð á Íslandi árið 2008 við hrun þriggja stærstu banka Íslands, í sögu nútímahagfræði var það jafnframt stærsta gjaldþrot bankakerfis í heiminum miðað við verga landsframleiðslu.
Hvernig gat Ísland byggt upp hlutfallslega stærra bankakerfi en Sviss á innan við tíu árum? Hvernig stóð á því að stjórnendur bankanna létu bankakerfið stækka svona hratt? Hvernig náðu félög og fyrirtæki peningum út úr bankakerfinu? Af hverju var þetta ekki stöðvað?
Í bókinni Bringing Down the Banking System rekur Guðrún Johnsen söguna af risi og falli íslenska bankakerfisins, segir frá niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis um skaðleg áhrif af krosseignatengslum eignarhaldsfélaga og ræðir hvaða lærdóm við getum dregið af bankahruninu.
Guðrún Johnsen er lektor í fjármálum við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, hún var starfsmaður rannsóknarnefndar Alþingis á árunum 2009-2010 og er varaformaður í stjórn Arion banka.