Clik here to view.

Magnús Þór Þorbergsson, leiklistarfræðingur, verður gestur á fundi Félags íslenskra fræða miðvikudaginn 26. október með erindið Úr baðstofu í borðstofu: Leikhús, sjálfsmynd þjóðar og mótun íslenskrar nútímamenningar.
Í júní 1923 samþykkti Alþingi lög um skemmtanaskatt sem höfðu það að markmiði að fjármagna byggingu þjóðleikhúss. Vonin um þjóðleikhús hafði feykileg áhrif á leikhúsumhverfi á Íslandi. Áhrifin voru hvað mest á Leikfélag Reykjavíkur, sem á undaförnum tveimur áratugum hafði fest sig í sessi sem eins konar staðgengill þjóðleikhúss og ein mikilvægasta menningarstofnun þjóðarinnar. Ákvörðun Alþingis hafði í för með sér margvíslegar breytingar á stöðu og starfsemi Leikfélagsins. Verkafnavalið tók stakkaskiptum, kröfur um fagmennsku jukust og átök um stjórn Leikfélagsins og framtíð þess sem nútímalegs leikhúss þjóðarinnar fóru vaxandi.
Í erindi sínu fjallar Magnús um rætur og þróun hugmynda um íslenskt þjóðarleikhús, tengsl þeirra við menningarlega þjóðernishyggju og sviðsetningu þjóðarinnar í leikhúsinu. Spurt verður hvernig breytingar í starfi Leikfélags Reykjavíkur á þriðja áratugnum endurspegla menningarlegt umrót og breytta samfélagsgerð í kjölfar fullveldis og hvernig Leikfélagið átti þátt í mótun íslenskrar nútímamenningar. Skoðað verður hvernig Leikfélagið lék lykilhlutverk í sviðsetningu á sjálfsmynd þjóðarinnar frá heimastjórn til fullveldis og spurt hvernig ný stefna í verkefnavali og áherslum á þriðja áratugnum birta breytta mynd af þjóðinni og ferðarlagi hennar úr baðstofu menningarlegrar þjóðernishyggju í borðstofu borgaralegrar millistéttar.
Magnús Þór Þorbergsson lauk MA-gráðu í leiklistarfræðum frá Freie Universität í Berlín 1999. Hann hefur m.a. starfað sem dramatúrg við Borgarleikhúsið og sem leiklistargagnrýnandi Víðsjár og var til ársins 2015 lektor við Sviðslistadeild Listaháskóla Íslands. Magnús er um þessar mundir að leggja lokahönd á doktorsritgerð um íslenskt leikhús og sjálfsmynd þjóðar 1850-1930 við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.