
Þorvaldur Kristinsson, rithöfundur og kynjafræðingur, verður gestur á fundi Félags íslenskra fræða miðvikudaginn 28. september þar sem hann kynnir einn þátt rannsókna sinna á sögu samkynhneigðra á Íslandi.
Í erindi sínu fjallar Þorvaldur um mál Guðmundar Sigurjónssonar árið 1924 en Guðmundur, landsfrægur íþróttamaður og glímukappi, mun vera eini Íslendingurinn sem hlotið hefur dóm og setið í fangelsi fyrir mök við aðra fullveðja karlmenn, þar sem dæmt var eftir ákvæðum íslenskra hegningarlaga frá 1869 um refsingar fyrir „samræði gegn náttúrlegu eðli“ en þau lög giltu til ársins 1940.
Í upphafi máls síns rekur Þorvaldur lífssögu Guðmundar, aðdraganda málaferlanna gegn honum og afleiðingar þeirra og spyr síðan hvaða gildi þessi saga kunni að hafa til skilnings á sögu samkynhneigðra: Hvað varð til þess að Guðmundur varð einn manna á 70 ára tímabili fyrir barðinu á ofannefndum ákvæðum íslenskra hegningarlaga? Hvað segir saga hans okkur um íslenskt vitundarlíf á þeim tíma sem um ræðir og í hvaða mæli kallast sú saga á við reynslu annarra karla í svipaðri stöðu á meginlandi Evrópu eins og hún birtist okkur við lok 19. aldar og á fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu?