Quantcast
Channel: Viðburðir við HÍ - Events at the University of Iceland
Viewing all articles
Browse latest Browse all 3012

Endurheimt lands á Suðurlandi og áhrif innlends lífræns áburðar á jarðveg

$
0
0
Hvenær hefst þessi viðburður: 
23. september 2016 - 15:40
Staðsetning viðburðar: 
Nánari staðsetning: 
Stofa 132
Háskóli Íslands

Julia Brenner flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í umhverfis- og auðlindafræði. Heiti verkefnisins er Endurheimt lands á Suðurlandi og áhrif innlends lífræns áburðar á jarðveg (Restoring Eroded Lands in Southern Iceland: Efficacy of Domestic, Organic Fertilizers in Sandy Gravel Soils).

Ágrip

Mikil landeyðing hefur átt sér stað á Íslandi frá upphafi búsetu í landinu vegna náttúrlegra ferla og nýtingar mannsins og er mikið jarðvegsrof á um 40% af yfirborði lands. Til margra ára hefur áburður verið notaður við endurheimt landgæða og lengstum hefur verið notaður innfluttur tilbúinn áburður. Ef lífrænn áburður sem fellur til í landbúnaði eða í matvælaiðnaði væri notaður við landgræðslu gæti hvoru tveggja áunnist, dregið yrði úr áhrifum jarðvegseyðandi ferla og stuðlað væri að minnkandi úrgangi frá iðnaði. Endurheimt gróðurs, minnkað jarðvegsrof og aukin náttúrleg framvinda gróðurs eru líkleg til að auka þanþol vistkerfa til langs tíma og efla þjónustu vistkerfa.

Í þeirri rannsókn sem hér er kynnt eru athugaðar þær breytingar sem hafa átt sér stað á gróðurfari og næringarefnum í illa förnum sendnum jarðvegi (á 0-5 sm, 5-10 sm og 10-20 sm dýpi) á Geitasandi á Suðurlandi.
Rannsóknin fór fram á sex mismunandi tilraunareitum fimm árum eftir að áburði var dreift á þá. Meðferðirnar voru: tilbúinn áburður sem hafði annarsvegar verið borinn á þrjú ár í röð, en einu sinni í öðrum. Þá var borinn á innlendur lífrænn áburður á þrjá reiti; kjötmjöl, seyra og hænsnaskítur. Sjötti reiturinn var viðmiðunarreitur sem ekki var borið á.

Niðurstöður sýndu að óverulegt magn nýtanlegs nítrats, nítríts og fosfórs var til staðar í tilraunareitum að loknum fimm árum þegar mælingar fóru fram. Í efstu 5 sm jarðvegs var ammóníak (NH3) hærra í reitum sem höfðu fengið tilbúinn áburð (báðar meðferðir) og kjötmjöl. Gróðurþekja var mest í reitum sem höfðu fengið tilbúinn áburð í þrígang, en gróðurþekjan var svipuð í þeim reitum þar sem borin voru á tilbúinn áburður, seyra og kjötmjöl og var gróðurþekjan marktækt meiri (aðallega mosi) og hæð gróðurs var meiri en í viðmiðunarreitum. Þótt áburðarnotkun hafi ekki haft áhrif á jarðvegsbyggingu, var rúmþyngd jarðvegs minni í reitum þar sem borið hafði verið á beinamjöl og tilbúinn áburður í þrígang og almennt má segja að þar sem mosaþekja var mikil var rúmþyngd jarðvegs lægri. Ekki var skýrt samband milli rúmþyngdar, og kolefnis- og lífræns innihalds jarðvegs, en líklegt er að það aukist með frekari gróðurframvindu, þar sem aukin gróðurþekja stuðlar að auknu kolefni og lífrænu innihaldi í jarðvegi.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að notkun lífræns innlends áburðar sé góður kostur við endurheimt landgæða hér á landi, þar sem slíkur áburður stuðlar að aukinni gróðurþekju, jarðvegsbyggingu og aðgengilegum næringarefnum fyrir gróður og stuðlar þar með að auknu þanþoli lands. 

Leiðbeinendur: Guðrún Gísladóttir, Utra Mankasingh og Magnús Jóhannesson

Prófdómari: Bjarni D. Sigurðsson prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands


Viewing all articles
Browse latest Browse all 3012