
Lagastofnun Háskóla Íslands og Lögfræðingafélag Íslands efna til málþings um tillögu stjórnarskrárnefndar um að bætt verði við stjórnarskrá ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur að kröfu almennings.
Tillögurnar eru aðgengilegar á stjornarskra.is. Þar kemur m.a. fram að fimmtán af hundraði kosningarbærra manna geta krafist þess að nýstaðfest lög frá Alþingi verði borin undir þjóðina í almennri, leynilegri og bindandi atkvæðagreiðslu. Til þess að hnekkja lögum eða ályktunum samkvæmt þessari grein þarf meiri hluti í þjóðaratkvæðagreiðslu, þó minnst fjórðungur kosningarbærra manna, að synja þeim samþykkis.
Með lögum, sem samþykkt eru með 2/3 hlutum atkvæða á Alþingi, skal mælt nánar fyrir
um upphafstíma og fyrirsvar undirskriftasöfnunar, form og söfnun undirskrifta, miðlun upplýsinga, framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu og lausn ágreiningsmála fyrir dómstólum.
Er tillagan þannig úr garði gerð að hún hvetji raunverulega til virkrar þátttöku almennings?
Er skynsamlegt að hafa tvenns konar ákvæði í stjórnarskrá um þjóðaratkvæðagreiðslur?
Hvers vegna er lagt í hendur almenna löggjafanum að ákveða nánar um undirskriftasafnanir og framkvæmd og hvers vegna þarf að samþykkja slíka löggjöf með 2/3 hluta atkvæða í stað einfalds meirihluta?
Framsöguerindi
Björg Thorarensen, prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands.
Pallborðsumræður
Þátttakendur í pallborði auk framsöguaðila eru:
Eiríkur Bergmann, prófessor við háskólann á Bifröst og fyrrv. fulltrúi í Stjórnlagaráði.
Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar og fyrrv. formaður Stjórnlagaráðs.
Fundarstjóri er Kristján Andri Stefánsson, formaður Lögfræðingafélags Íslands.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.