
Föstudaginn 18.mars ver Helgi Rafn Hróðmarsson doktorsritgerð sína í efnafræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Heiti verkefnisins er: Víxlverkanir ástanda, kvikfræði örvana, hulin ástönd og ljósrofsferli í vetnishalíðum (e. State Interactions, excitation dynamics, hidden states and photofragmentation pathways in hydrogen halides).
Andmælendur eru dr. Michael N. R. Ashfold, prófessor við Háskólann í Bristol, Englandi, og dr. Theofanis Kitsopoulos, prófessor við Krítarháskóla, Grikklandi.
Leiðbeinandi var dr. Ágúst Kvaran, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Einnig sátu í doktorsnefnd dr. Gísli Hólmar Jóhannesson, sérfræðingur hjá MentisCura, dr. Ragnar Jóhannsson, fagstjóri hjá Matís og dr. Kristján S. Kristjánsson, stundakennari við Háskóla Íslands.
Dr. Hafliði Pétur Gíslason, prófessor og deildarforseti Raunvísindadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.
Ágrip af rannsókn
Þungamiðja doktorsverkefnisins snerist um tvö aðskilin en náskyld viðfangsefni. Hið fyrra snýst um mælingar á samhrifsstyrktum fjölljóseindajónunar (REMPI) rófum vetnishalíðanna HBr og HI. Skráð róf beggja sameinda leiddu í ljós umtalsverð truflunaráhrif; línuhliðranir, breytingar á línustyrkjum og línuvíkkanir. Þessi áhrif eru til styttingar kölluð LS-, LI- og LW-áhrif. Að mæla þessi áhrif hlutbundið og eigindlega gerir gagnasöfnun varðandi víxlverkanir á milli Rydberg- og jónparaástanda mögulega. Þessar víxlverkanir fela m.a. í sér ljóssundrun í gegnum fráhrindandi ástönd og jónun atómbrotanna sem úr þeim myndast. Dulin ástönd eru sömuleiðis fundin í gegnum truflanaáhrif. Hraðavigurskortlagningar (VMI) eru framkvæmdar á HBr. Slíkar tilraunir mæla stefnu og hreyfiorku jónaðra atómbrota. Með niðurstöðum þessara tilrauna má finna hvaða ljósbrotsferlar koma við sögu í ljósrofnunar- og jónunarferlum sameindarinnar þar sem Rydberg- og jónparaástönd taka þátt sem miðbiksástönd.
Um doktorsefnið
Helgi Rafn Hróðmarsson er fæddur 1987. Hann lauk B.Sc. gráðu í efnafræði frá Háskóla Íslands í júní 2011. Í kjölfarið starfaði hann í hálft ár í hjá rannsóknar- og þróunardeild Carbon Recycling International (CRI). Helgi hefur verið í stjórn Efnafræðifélags Íslands frá árinu 2012 og er núverandi formaður félagsins.
Helgi spilar einnig á trommur í svartmálmshljómsveitunum Carpe Noctem, Misþyrmingu og Nöðru.