
Námsbraut um kennslu í framhaldsskólum og Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs við Háskóla Íslands boða til opinna funda um rannsóknir á framhaldsskólastarfi. Málstofurnar verða haldnar í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð. Erindin eru að jafnaði um 20 mínútur og jafnlangur tími er ætlaður til umræðna. Erindin eru flutt á íslensku nema annað sé tekið fram.
Lára Huld Björnsdóttir, framhaldsskólakennari flytur fyrirlestur undir yfirskriftinni: Sýna framhaldsskólakennarar nemendum sínum umhyggju í kennslu og samskiptum?
Fjallað verður um rannsókn þar sem gengið út frá umhyggjuhugtaki Nel Noddings og fleiri um að umhyggja sé kjarni skólastarfs á öllum skólastigum og lykillinn árangursríkri menntun. Í rannsókinni var rætt við átta framhaldsskólanema á lokaári framhaldsskóla. Þeir lögðu áherslu á virðingu af hálfu kennara, að kennarar láti nemendur sig varða, jafnt velferð og gengi í námi, að kennarar styddu nemendur, t.d. með hrósi, og einnig að umhyggja gæti falist í fjölbreyttum kennsluaðferðum.
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.