
Mánudaginn 7. mars ver Margrét Auður Sigurbjörnsdóttir doktorsritgerð sína í líffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Örverulífríki fléttna: tegundasamsetning og starfsemi samlífisbaktería fléttna (The lichen-associated microbiome: taxonomy and functional roles of lichen-associated bacteria).
Andmælendur eru dr. Gabriele Berg, prófessor við Háskólann í Graz, Austurríki og dr. Viggó Marteinsson, fagstjóri hjá Matís.
Leiðbeinandi var dr. Oddur Vilhelmsson, prófessor við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri. Einnig sátu í doktorsnefnd dr. Ólafur S. Andrésson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, dr. Kristinn P. Magnússon, prófessor við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri, og dr. Starri Heiðmarsson, sviðsstjóri grasafræði við Náttúrufræðistofnun Íslands.
Dr. Eva Benediktsdóttir, dósent og varadeildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar stjórnar athöfninni.
Ágrip af rannsókn
Fléttur eru sambýli sveppa og ljóstillífandi lífvera, ýmist grænþörunga eða blábaktería. Í þeim er þó einnig að finna stórt og fjölbreytt samfélag annarra baktería, en hin ljósóháða bakteríubíóta fléttna hefur afar lítið verið rannsökuð þar til á allra síðustu árum. Í fyrri hluta verkefnisins var sýnum af fjórum íslenskum strandfléttum (Hydropunctaria maura, Verrucaria ceuthocarpa, Caloplaca verruculifera and Lecanora helicopis) safnað og ræktanleg bakteríubíóta þeirra greind. Einangraðir voru 168 bakteríustofnar og valdir stofnar teknir til greiningar. Í síðari hluta verkefnisins var sýnum af himnuskóf, Peltigera membranacea, safnað. Erfðaefni fléttunnar var einangrað og raðgreint. Gerður var gagnagrunnur samfellna (contigs) sem flokkaðar voru úr rúmlega 150 þ. samfella samkvæmt einsleitni við 15 valin bakteríuerfðamengi. BLASTx algóriþmi var notaður til að leita gegn þekktum röðum í prótein-gagnabanka.
Niðurstöður sýna að meirihluti bakteríubíótunnar tilheyrir Alphaproteobacteria en jafnframt er þar að finna Acidobacteria, Actinobacteria, Bacteroidetes og Verrucomicrobia. Einnig sést að þar er að finna gen sem taka þátt í grunnefnaskiptum, áreitissvörun (stress response), boðferlum (signal transduction), niðurbroti fjölliða, nýmyndun próteina og DNA og fleira. Að auki var sýni úr P. membranacea sáð á mismunandi ætistegundir. Einangraðir stofnar úr himnuskóf voru samtals 113 og voru framkvæmd ýmis greiningapróf á þeim, t.a.m. niðurbrot fjölliða og olíuefna, og fleiri lífefnafræðilegir þættir.
Um doktorsefnið
Margrét Auður Sigurbjörnsdóttir er fædd árið 1982. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 2003 og BS-prófi í líftækni frá Háskólanum á Akureyri árið 2007.
Margrét Auður innritaðist í doktorsnám í líffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands árið 2012 en áður hafði hún lokið MS-gráðu í líftækni við Háskólann á Akureyri, árið 2009.
Eiginmaður Margrétar Auðar er Steinar Rafn Beck, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, og eiga þau þrjú börn, Anítu Ósk, Ástu Karítas og Baldur Leví.