Hvenær hefst þessi viðburður:
26. janúar 2016 - 15:00
Staðsetning viðburðar:
Nánari staðsetning:
stofa 158

Gunnar Dagur Darrason flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í iðnaðarverkfræði. Heiti verkefnisins er Framleiðsluaukning fiskeldis Mat á takmarkandi þáttum eldisvökva og forgangsröðun fjárfestinga.
Ágrip
Eiginleikar eldisvökva ráða miklu um afkastagetu fiskeldisstöðva. Í þessu verkefni er sýnt fram á hverjir eru fyrstu fjórir takmarkandi þættir eldisvökva. Þeir eru súrefni, koltvísýringur, ammoníak og grugg. Leiddar voru út jöfnur fyrir þættina sem lýsa hámarkslífmassa að hverjum takmarkandi þætti. Þessar jöfnur voru notaðar til að meta umfang meðhöndlunar sem þarf til þess að yfirstíga hvern takmarkandi þátt eldisvökva. Sett var upp dæmi um fiskeldisstöð sem hafði áhuga á að auka lífmassa og framleiðslugetu. Með því að takast á við alla þætti getur eldisstöð aukið lífmassa sinn 85-falt. Reiknaður var út kostnaður við að yfirstíga takmörkun súrefnis og koltvísýrings. Reikningar leiddu í ljós að meðhöndlun eldisvökva var hagkvæmari en að auka framleiðslugetu eldisstöðvar með nýrri borholu. Lægsti framleiðslukostnaður eldisstöðvarinnar náðist með því að súrefnismeðhöndla eldisvökva. Einnig var reiknaður út meðhöndlunarkostnaður fyrir eldisstöð sem hefur aðgang að gnægð vatns. Þeir reikningar sýndu fram á að framleiðslukostnaður lækkar með aukinni meðhöndlun eldisvökva og sýndu þeir að eldisstöðvar ættu að minnsta kosti að súrefnisbæta eldisvökva og lofta út koltvísýringi.
Leiðbeinendur: Guðmundur V. Oddsson og Ragnar Jóhannsson
Prófdómari: Sigurjón Arason