
Hafrún Kristjánsdóttir ver doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum, sem ber heitið: Að bæta aðgengi að sálfræðimeðferð í heilsugæslu með ósérhæfðri hugrænni atferlismeðferð í hóp (Improving Access to Psychological Treatment in Primary Care through Transdiagnostic Cognitive Behavioural Group Therapy).
Andmælendur eru dr. Stephen Barton, lektor við Newcastle University, Bretlandi, og Heiðdís Valdimarsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík og Mount Sinai School of Medicine í New York.
Umsjónarkennari var dr. Jón Friðrik Sigurðsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands og Sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík. Leiðbeinandi var Paul Salkovskis, prófessor við University of Bath í Englandi. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd þeir Engilbert Sigurðsson, prófessor við Læknadeild HÍ, Daníel Þór Ólason, dósent við Sálfræðideild HÍ, og Jón Steinar Jónsson, lektor við Læknadeild HÍ.
Magnús Karl Magnússon, prófessor og deildarforseti Læknadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.
Ágrip af rannsókn
Algengt er, bæði hérlendis og erlendis, að lyndis- og kvíðaraskanir séu ómeðhöndlaðar. Slíkt hefur í för með sér vanlíðan og er einnig kostnaðarsamt fyrir samfélagið. Hugræn atferlismeðferð er árangursríkt og hagkvæmt meðferðarform en á síðustu árum hefur áhugi á ósértækri hugrænni atferlismeðferð í hóp (ÓHAMH) farið vaxandi.
Meginmarkmið rannsóknarinnar var að meta árangur af íslenska ÓHAMH meðferðavísinum. Þrjár rannsóknir voru gerðar til þess að ná þessu markmiði.
Í rannsókn I voru próffræðilegir eiginleikar íslensku útgáfunnar af CORE-OM árangursmatslistanum metnir. Alls tóku 594 þátt. CORE-OM var lagður fyrir alla þátttakendur ásamt öðrum sjálfsmatskvörðum. Ósértækir eiginleikar listans voru sérstaklega metnir. Í rannsóknum II og III voru þátttakendur 382 einstaklingar sem áttu við þunglyndis- og/eða kvíðaraskanir að stríða og tóku þátt í ÓHAMH. Árangur meðferðarinnar var metinn eftir greiningarflokkum og fjölda greininga en einnig var árangur meðferðinnar á sértæk einkenni geðraskana metinn.
Niðurstöður: Próffræðilegir eiginleikar CORE-OM voru viðunandi og í ljós kom að listinn hefur ósértæka eiginleika. Niðurstöður rannsókna II og III sýndu að meðferðin bar árangur en kvíða og þunglyndiseinkenni þátttakenda voru minni í lok meðferðar en þau voru í upphafi hennar. Fjöldi geðgreininga hafði ekki áhrif á árangurinn og meðferðin dró jafnt úr sértækum sem almennum einkennum geðraskana.
Ályktanir: Hinn íslenski ÓHAMH meðferðavísir er árangursríkur og hentar fólki með þunglyndis- og kvíðaraskanir og hann gæti því reynst gagnlegur ef auka á aðgengi sjúklinga í heilsugæslu að gagnreyndri sálfræðimeðferð.
Um doktorsefnið
Hafrún Kristjánsdóttir fæddist árið 1979. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1999 og BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2003. Tveimur árum síðar, árið 2005, lauk Hafrún Cand. psych. prófi frá sömu deild og innritaðist í doktorsnám við Læknadeild Háskóla Íslands árið 2010. Hafrún starfaði sem sálfræðingur á geðsviði Landspítala á árunum 2005–2013. Árið 2011 hóf hún störf við Háskólann í Reykjavík og hefur gegnt sviðsstjórastöðu íþróttafræðisviðs skólans frá árinu 2013.