Quantcast
Channel: Viðburðir við HÍ - Events at the University of Iceland
Viewing all articles
Browse latest Browse all 3012

Doktorsvörn við Uppeldis- og menntunarfræðideild

$
0
0
Hvenær hefst þessi viðburður: 
26. ágúst 2015 - 13:00
Staðsetning viðburðar: 
Nánari staðsetning: 
Hátíðarsalur
Anh-Dao Katrín Tran

 Anh-Dao Katrín Tran ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Uppeldis- og menntunarfræðideild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands:

Untapped Resources or Deficient ‘Foreigners’: Students of Vietnamese Background in Icelandic Upper Secondary Schools, á íslenskuÓvirkjuð auðlind eða ófullkomnir ‘útlendingar’: Nemendur af víetnömskum uppruna í íslenskum framhaldsskólum

 

Athöfnin fer fram miðvikudaginn 26. ágúst nk. kl. 13:00 í Hátíðasal Háskóla Íslands.

Andmælendur eru dr. Nihad Bunar prófessor við Háskólann í Stokkhólmi, Svíþjóð og dr. Vini Lander prófessor við Edge Hill háskóla, Englandi.

 

Leiðbeinendur voru dr. Hanna Ragnarsdóttir, aðalleiðbeinandi, prófessor við Háskóla Íslands og dr. Chris Gaine, meðleiðbeinandi, prófessor við University of Chichester, Englandi. Auk þess sat í doktorsnefndinni dr. Gestur Guðmundsson prófessor við Háskóla Íslands.

 

Dr. Ólafur Páll Jónsson, deildarforseti Uppeldis- og menntunarfræðideildar Menntavísindasviðs, stjórnar athöfninni.

 Allir velkomnir

 

 

 

 

Miðvikudaginn 26. ágúst nk. kl. 13:00 fer fram doktorsvörn frá Uppeldis- og menntunarfræðideild  við Menntavísindasvið, Háskóla Íslands. Þá ver Anh-Dao Katrín Tran ritgerð sína  Untapped Resources or Deficient ‘Foreigners’: Students of Vietnamese Background in Icelandic Upper Secondary Schools, á íslensku Óvirkjuð auðlind eða ófullkomnir ‘útlendingar: Nemendur af víetnömskum uppruna í íslenskum framhaldsskólum.

 

Um verkefnið

Óvirkjuð auðlindeða ófullkomnir “útlendingar”: Nemendur af víetnömskum uppruna í íslenskum framhaldsskólum

Um leið og lýðfræðilegar rætur Íslendinga verða fjölbreyttari breytist samsetning nemendahópsins í framhaldsskólum landsins. Tilgangur þessarar rannsóknar, sem byggir einmitt á kenningum fjölmenningarmenntunarfræðinnar, er að leita skilnings á hugtakinu jafnrétti og athuga hversu vel íslenska skólakerfinu hefur tekist að tryggja jafnan rétt ungs fólks úr þjóðernisminnihlutahópum

Fjölmenningarmenntunarfræðin gengur út frá að allir séu teknir með, að gerð sé krafa um að fjölbreytileiki sé metinn að verðleikum og að allir njóti jafnra tækifæra án tillits til kyns, trúar, lífsskoðana, þjóðernis, kynþáttar, félagslegrar stöðu, fötlunar og fleiri þátta (Banks, 2007b).  Aðferðafræði rannsóknarinnar og rannsóknaráætlunin sjálf eru byggð á gagnrýninni þátttökuathugun, sem beitt er til að varpa ljósi á stefnumarkandi skjöl og greina viðtöl við stjórnendur, kennara og nemendur.

Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru þrjár. Í fyrsta lagi eru færð rök fyrir því að þótt lög, reglugerðir og námskrá, sem mynda grunn fyrir kennslu og aðlögun nemenda úr hópi innflytjenda, geri að nokkru leyti ráð fyrir að Ísland sé orðið fjölmenningarsamfélag, þá einblíni þau í of ríkum mæli á vankunnáttu þeirra í íslensku máli og vanþekkingu á íslenskri menningu í staðinn fyrir að viðurkenna þeirra eigin þekkingu og menningu og hvernig þessir þættir geta eflt þau og orðið þeim til framdráttar við námið. Í öðru lagi er sýnt fram á að þar sem auðlindir eru af skornum skammti og þekking á kennslufræðilegum æfingum mótuðum af heimspeki fjölmenningar­mentunarfræðinnar lítil, hafi kennarar gert sitt besta með því að prófa sig áfram og læra af reynslunni. Í þriðja lagi er lýst hvernig reynsla nemenda innan úr skólunum er mótuð með beinum hætti af þeirri stefnu og skólamála­umræðu sem ríkti á þeirra skólatíma; þrátt fyrir að þeir beri hlýjar tilfinningar til kennara sinna fyrir að gera sitt besta finna nemendur fyrir veikleikum sínum vegna lítillar tungumálakunnáttu og félagslegrar einangrunar frá innfæddum samnemendum sínum.

Rannsóknin leggur til að í skjölum sem snerta mótun stefnu stjórnvalda, umræður og orðfæri þeim tengd, séu hugtökin fjölmenning og fjölbreytni notuð með skýrum hætti. Kennslufræði þurfi að ná til allra hópa í margbreytilegu samfélagi. Skýr og nákvæm markmið þurfi að setja og uppfylla með skiptingu fjármagns og eflingu á getu starfsfólks með þjálfun og stuðningi við stjórnendur og kennara. Á vettangi skólans er þörf á breyttum skilningi. Nemendur úr hópi innflytjenda eru ekki undirmálsfólk heldur ráða þeir yfir ríkulegum auði, menntunarlegum, félagslegum og menningarlegum, sem getur orðið þeirra framlag í náminu.

 

About the project

Untapped Resources or Deficient ‘Foreigners’: Students of Vietnamese Background in Icelandic Upper Secondary Schools

As Iceland’s population becomes more diverse, so does the student body in upper secondary schools. Grounded in multicultural education theories, this study’s purpose is to understand the implications of the concept of equality and how well the Icelandic educational system has established itself to make it equitable for young people of ethnic minority background.

The philosophy of multicultural education is one of inclusion, insistence upon valuing diversity and equal opportunity regardless of gender, religion, and belief, ethnicity, race, socioeconomic status, disability or any other status (Banks, 2007b). The methodology of the study draws upon critical ethnography, which was employed as an analytical tool to scrutinize the policy documents and analyse the interviews with administrators, teachers and students.

The results reveal, due to the lack of resources and knowledge about pedagogical practices informed by multicultural education philosophy, the administrators and teachers in the study resorted to doing the best they could. The immigrant students’ experiences were that despite their warm feeling towards their teachers and their belief that their teachers were trying to do their best, the students were perceived by many teachers to be deficient due to their lack of Icelandic language proficiency and were socially isolated from their Icelandic-heritage peers.

The study proposes that the discourse and language of policy documents be explicit about the concept of multiculturalism and diversity. Inclusive pedagogy is a prerequisite for the teaching and learning for a diverse student population . Clear and specific goals need to be set and met by allocation of funding and by capacity building. There is the need for the shifting of perceptions. Immigrant students are not deficient but embody rich academic, social and cultural resources that contribute to their learning.

 

Um doktorsefnið

Anh-Dao Tran fæddist árið 1959. Hún kom sem flóttamaður með fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna árið 1975, en hefur átt lögheimili á Íslandi síðan 1984. Hún kenndi fyrst við Heyrnleysingjaskólann í Reykjavík, en starfaði næstu ellefu árin við enskukennslu, aðallega við skóla í Borgarfirði.

Anh-Dao lauk B.A. prófi frá Dartmouth College og M.A. prófi frá Teachers College við Columbia University sem heyrnleysingjakennari. Hún er meðhöfundur að tveimur bókum, Icelandic for Beginners og Íslensk-víetnömsk/víetnömsk-íslensk orðabók. Hún hefur gefið út niðurstöður rannsókna sinna um „Þætti sem hafa áhrif á námsárangur asískra nemenda, „og stýrði samstarfsverkefninu „Framtíð í nýju landi” um aðlögun ungra innflytjenda. Anh-Dao hefur verið þátttakandi í rannsóknarhópi Hönnu Ragnarsdóttir prófessors um „Námsumhverfi menntunar án aðgreiningar og félagslegs réttlætis: Sögur um velgengni nemenda af erlendum uppruna og skóla á Íslandi frá 2012. Hún vinnur einnig að rannsókninni „Stefna í málefnum nemenda af erlendum uppruna og innleiðing hennar í fjórum sveitarfélögum á Íslandiásamt Hönnu Ragnarsdóttur, prófessor.

Hún hefur hlotið riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu nýrra Íslendinga og íslensks samfélags, og viðurkenningu Barnaheilla fyrir framlag í þágu barna og réttinda þeirra.

Anh-Dao er gift Jónasi Gudmundssyni og dóttir þeirra er Heiðrún Giao-Thi.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 3012