
Mieke Van Houtte flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í Geo-information Science and Earth Observation for Environmental Modelling and Management (GEM). Heiti verkefnisins er Sustainable tourism management in protected areas using a systemic approach: A case study from Þingvellir National Park, Iceland.
Ágrip
Ör vöxtur náttúruferðamennsku á friðlýstum svæðum getur haft skaðleg áhrif á viðkvæm vistkerfi. Til að tryggja að komandi kynslóðir eigi sömu möguleika á að njóta náttúru friðlýstra svæða er mikilvægt að stýra ferðamennsku í átt að sjálfbærni. Áskorunin liggur í því að finna jafnvægi í nýtingu og verndun náttúruauðlindarinnar til að viðhalda núverandi og framtíðar nýtingu auðlindarinnar. Grundvallaratriði í árangursríkri umhverfisstjórnun sem dregur úr óæskilegum umhverfisáhrifum ferðamennsku, er að skilja þá undirliggjandi þætti sem leiða til neikvæðra umhverfisáhrifa. Í þessari rannsókn er stuðst við kerfisnálgun til að ná fram heildrænum skilningi á orsakasamhengi milli breyta í náttúruferðamennsku á friðlýstum svæðum. Meginmarkmið rannsóknarinnar er tvíþætt. Í fyrsta lagi að rannsaka möguleika kerfisgreiningar í stjórnun sjálfbærrar ferðamennsku á friðlýstum svæðum sem einkennast af viðkvæmum vistkerfum, með því að meta umhverfisáhrif af afþreyingu og innviðum ferðamennsku, og hvernig þau hafa áhrif á upplifun ferðamanna. Í öðru lagi, með því að greina orsakir og afleiðingar mismunandi stjórnunartækja við að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum ferðamennsku og hámarka jákvæð áhrif. Tilviksrannsókn var gerð fyrir Þingvallaþjóðgarð þar sem lykilbreytur voru dregnar fram og orsakatengsl á milli þeirra greind. Niðurstöður undirstrika mikilvægi viðeigandi umhverfisstjórnunar til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum náttúruferðamennsku. Niðurstöður leiða jafnframt í ljós að kerfisgreining er grundvallartæki í sjálfbærri stjórnun ferðamennsku sem veitir nauðsynlegt gagnsæi til að auka skilning á orsakatengslum lykilbreyta í kerfinu.
Leiðbeinendur: Dr. Rannveig Ólafsdóttir, prófessor og Dr. Harald Sverdrup, prófessor.
Prófdómari: Dr. Hörður V. Haraldsson