
David O. Friedrichs prófessor í félags- og afbrotafræði við Scranton háskóla í Pennsylvaniu (BNA) heldur opinn hádegisfyrirlestur á vegum Félagsfræðingafélags Íslands og Félags- og mannvísindadeildar Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn ber yfirskriftina "Wall Street: Crime Never Sleeps." Í erindinu ræðir Friedrichs hversu fáar ákærur hafa litið dagsins ljós í Bandaríkjunum fyrir efnahagsbrot sér í lagi ástæður þess og afleiðingar. Hann beinir einkum sjónum sínum að brotum á Wall Street í samanburði við hefðbundnari afbrot. Hver er munurinn á venjulegu bankaráni og ráni framið af bönkunum sjálfum? Hvað einkennir hvítflibbabrot? Var fjárfestingabankinn Goldman Sachs, sem áður var í hávegum hafður, uppvís að margvíslegri brotastarfsemi? Hverjar eru afleiðingar brota á Wall Street fyrir framtíðarsamfélag okkar með hliðsjón af fjármálakreppunni sem reið yfir fyrir fáum árum?
David O. Friedrichs á langan og farsælan feril að baki í fræðasamfélaginu. Hann hefur skrifað fjölda bóka og greina um hvítflibbabrot og fleiri afbrotafræðileg málefni í virtum tímaritum. Hann hefur verið gestaprófessor víða um heim og hlotið viðurkenningar fyrir fræðastörf sín frá hinum ýmsu samtökum afbrotafræðinga.
Fundarstjóri Helgi Gunnlaugsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.