
Marteinn Þór Snæbjörnsson ver doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum, sem ber heitið: Mögulegt stjórnunarhlutverk glýkólýsu í fósturþroskun. A potential regulatory role of glycolysis during mouse embryonic development – Analyzing the moonlighting function of Aldolase A.
Andmælendur eru Thomas Dickmeis, prófessor og hópstjóri við Institute of Toxicology and Genetics við Karlsruhe Institute of Technology í Þýskalandi, og dr. Óttar Rolfsson, lektor við Læknadeild Háskóla Íslands.
Leiðbeinandi var dr. Alexander Aulehla, hópstjóri við þroskunarlíffræðideild European Molecular Biology Laboratory (EMBL), og tengiliður við Háskóla Íslands var dr. Pétur H. Petersen, dósent við læknadeild skólans. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Anne Ephrussi, hópstjóri og yfirmaður þroskunarlíffræðideildar EMBL, og Matthias Hentze, hópstjóri og forstjóri EMBL.
Magnús Karl Magnússon, prófessor og deildarforseti Læknadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.
Ágrip af rannsókn
Framan af hefur verið talið að eina hlutverk sykurrofs eða glýkólýsu sem og annarra efnaskiptaferla sé að útvega orku og byggingarefni fyrir frumuna. Margar nýlegar rannsóknir benda þó til þess að þetta sé ekki tilfellið, ýmsir efnaskiptaferlar geta haft bein áhrif á aðra ferla í frumum. Efnaskipti geta haft áhrif á aðra frumuferla m.a í gegnum svokölluð „moonlighting” ensím en það eru ensím sem hafa hlutverk ótengd efnaskiptum, t.d. sem umritunarþættir til viðbótar við þeirra hefðbundu hlutvek sem ensím. Í þessu verkefni var liðskipting PSM (Presomitic mesoderm) í fósturþroskun músa notuð sem rannsóknarmódel til að bera kennsl á þær aðferðir sem efnaskipti notast við til að hafa áhrif á aðra þætti frumunnar. Mögulegt er að rækta PSM í skilgreindu æti og fylgjast með fósturþroskun in vitro sem leyfir okkur að stýra hvaða næring er til staðar og að hafa áhrif á efnaskipti. Með því að notast við transgenískar mýs og myndun í rauntíma getum við skoðað afleiðingar þess að hafa áhrif á efnaskipti á bæði fósturþroskun og de novo genatjáningu. Niðurstöður sýna að milliefnið F1,6bP en ekki önnur milliefni í glýkólýsu hefur svæðisbundin áhrif á þroskun PSM. Þar sem glýkóýsa á sér einungis stað í umfryminu var skoðuð innanfrumustaðsetning nokkurra ensíma í glýkólýsu með það að markmiði að bera kennsl á hugsanleg “moonlighting” ensím. Það fannst að nokkur ensím í glýkólýsu, þar á meðal ensímið Aldolase A sem notar F1,6bP sem hvarfefni, eru staðsett í frumukjarnanum. Þegar PSM er ræktað í æti sem inniheldur F1,6bP hverfur AldoA úr kjarnanum á hraðan og afturkræfan hátt. Einnig er mögulegt að hafa áhrif á innanfrumustaðsetningu AldoA með því að virkja flæðistakmarkandi lykilensím í glýkólýsu á allósterískan hátt. Þessar niðurstöður benda til þess að AldoA ferðist á milli kjarna og umfrymis og gæti verið leið frumunnar til að skynja flæði í glýkólýsu.
Um doktorsefnið
Marteinn Þór er fæddur árið 1981. Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 2003 og BSc-prófi í lífefnafræði frá Háskóla Íslands árið 2007. Árið 2010 lauk hann MSc-prófi í líf- og læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands. Sama ár hóf Marteinn sameiginlegt doktorsnám við EMBL í Heidelberg og Háskóla Íslands. Marteinn er giftur Wally Bluhm og eiga þau soninn Snæbjörn Kára Marteinsson.