Hvenær hefst þessi viðburður:
12. febrúar 2015 - 15:00 til 18:00

ÍSLENSK TORFHÚS SEM MENNINGARARFUR
Málþing, 12. febrúar, kl. 15:00-18:00, 2015
Á undanförnum árum hefur umræða um íslenskan menningararf gengið í endurnýjun lífdaga, þar sem horfið hefur verið frá þjóðernislegum afmörkunum og gerðar gagnrýnar tilraunir til endurskilgreinir á íslenskri menningu sem hluta af alþjóðlegu samhengi. Íslensk torfhús hafa löngum verið sérstakt viðfangsefni í þessum efnum, þar sem þeim hefur verið lýst sem mótandi afl íslensks samfélags og menningar, og þar af leiðandi talin eitt af helstu ummerkjum efnislegrar menningar í landinu og þar með mikilvægur hluti af íslenskum menningararfi. Skipulegt starf á vegum minjavörslunar í landinu hefur um langa hríð haft torfhús að sérstöku viðfangsefni og stuðlað að varðveislu þeirra og miðlun á upplýsingum um gerð þeirra, hlutverk og gildi fyrir menningu Íslendinga. Íbúahreyfingar hafa einnig lagt sitt lóð á vogarskálarnar og efnt til stofnana á borð við útiminjasöfn eða varðveisluverkefna þar sem torfhús leika lykilhlutverk í mótun staðar- og söguvitundar. Listamenn hafa jafnframt gert torfhús að viðfangsefni sínu og arkitektar hafa einnig litið til torfhúsa sem fyrirmyndir að samfellu í skipulagi og gerð mannlegs umhverfis og gert tilraunir með eiginleika torfhúsa þar sem form þeirra og efni hafa verið innleidd í samtímalegan arkitektúr. Fræðimenn hafa sömuleiðis lagt sitt af mörkum og reifað gildi torfhúsa sem menningararfur. Á þessu málþingi verður boðið upp á erindi sem greina frá margvíslegum hliðum torfhúsa ísamhengi við rannsóknir á íslenskum menningararfi. En markmiðið með málþinginu er að tengja saman ólíkar aðferðir og kenningar sem eru efstar á baugi í gagnrýnni skoðun á torfhúsum sem menningararfur.
Þátttakendur:
Ólafur Rastrick. „Af úreltu drasli og arfleifð þjóðar: Sjónarhorn á
menningararfshugtakið“
Bjarni F. Einarsson. „Torf tekur land.“
Hildigunnur Sverrisdóttir. „Byggt t í lendum tímans“
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir. „Landslag, fagurfræði og verndargildi“
Finnur Guðmundarson Olguson. „Steinn í götu framfara — náttúruleg
byggingarlist frá sjónarmiði róttækrar umhverfisverndar“
Unnar Örn. „Að erfa hús – þrjár skyggnilýsingar af bráðabirgðarskýlum í
Reykjavík“
Marta Guðrún Jóhannesdóttir og Sigurjón Baldur Hafsteinsson.
„Drabbaranáttúran jafngildir styrjöld“: Halldór Kiljan Laxness og torfhús.
Fundarstjóri er Hannes Lárusson myndlistarmaður.
Málþingið er haldið á vegum Rannsóknaseturs í safnafræðum við Háskóla
Íslands. Staðsetning: Litla Torg, Háskóla Íslands, þann 12. febrúar 2015
kl. 15:00-18:00.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.