Fimmtudaginn 30. apríl nk. fer fram doktorsvörn við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þröstur Helgason ver doktorsritgerð sína í almennri bókmenntafræði: Tímaritið Birtingur og íslenskur módernismi. Lítil tímarit, landfræði, menningarsaga.
Andmælendur eru Birna Bjarnadóttir, dósent við Manitobaháskóla, og Ólafur Rastrick, lektor við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Aðalleiðbeinandi Þrastar var Ástráður Eysteinsson, prófessor í almennri bókmenntafræði og forseti Hugvísindasviðs, en í doktorsnefnd voru auk hans Bergljót Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum, og Guðni Elísson, prófessor í almennri bókmenntafræði. Sveinn Yngvi Egilsson, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni sem fram fer í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu og hefst kl. 13.
Um efni ritgerðarinnar
Meginmarkmið ritgerðarinnnar er að kanna þátt Birtingsí tilurð og þróun íslensks módernisma. Ritið var opið rými til leiks og tilrauna með hefðir jafnt sem nýjar stefnur í bókmenntum og listum. Þetta opna rými var að mörgu leyti mikilvægt fyrir íslenskan módernisma. Það var ekki aðeins staður fyrir tilraunir og nýjungar heldur einnig umræðu um þær. Í henni eru oft dregnar upp skýrar línur um átök andstæðna á borð við gamalt og nýtt, innlent og erlent, hámenningu og lágmenningu, raunsæi (realisma) og módernisma – og fleira mætti nefna. Umræðurnar leiða sömuleiðis í ljós hvernig Birtingsmenn stilla andstæðingum tímaritsins og stefnunnar, sem það boðar, upp sem eins konar staðsetningarpunktum í menningarlandslaginu, rétt eins og gert væri í herfræðilegum tilgangi. Og það er einmitt út frá þessum skýru átakalínum sem saga módernismans hefur yfirleitt verið skrifuð. Sé aftur á móti rýnt í heimildir kemur í ljós að sagan er að mörgu leyti mun flóknari og þversagnakenndari en oft hefur verið látið í veðri vaka.
Um doktorsefnið
Þröstur Helgason er fæddur árið 1967. Þröstur hefur lokið B.A. og M.A.-prófi í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands. Hann var gestanemandi við List- og menningarfræðideild Kaupmannahafnarháskóla í eitt ár á meðan hann vann að doktorsritgerð sinni. Hann hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands, sinnt ritstjórn, meðal annars á Lesbók Morgunblaðsins, og er nú dagskrárstjóri Rásar 1. Þröstur er kvæntur Hrönn Marinósdóttur og eiga þau þrjár dætur.