
Nú er komið að Gísla Pálssyni prófessor í mannfræði við HÍ að halda framsögu í föstudagsseminar okkar um söguleg efni sem haldinn verður næsta föstudag (hinn 17. október), í stofu 102 Gimli (G102), kl. 12-13.. Hann nefnir sitt efni:
Ævisaga þræls, ert'að grínast!: „Maðurinn sem stal sjálfum sér“
Gísli lýsir framsögu sinni með eftirfarandi orðum:
Ævisagan er ekki gömul bókmenntagrein, álíka gömul og saga Hans Jónatans, karabíska þrælsins sem settist að á Djúpavogi árið 1802. Hugmyndir fólks um hverjir verðskuldi ævisögu og hvernig ævisöguritarar eigi að bera sig að hafa þó sífellt verið í mótun. Ævisögur þræla eru sjaldan ritaðar, en það er þó að breytast. Ég velti fyrir mér mikilvægi slíkra ævisagna, þeim vandamálum sem við er að glíma og gagnsemi þess að bæði flétta saman sagnfræðileg og manfræðileg sjónarmið og einblína á ævi einnar manneskju.
–––––
Við hvetjum alla áhugasama um að taka þátt í þessari málstofu og hika ekki við að taka með sér nesti. Eins og fram kemur í textanum hér að ofan mun Gísli meðal annars ræða aðalpersónuna í bók sem hann lauk nýlega við um dökkan mann á húð og hár sem hét Hans Jónatan og var upprunalega frá Jómfrúareyjum í Karíbahafi en settist að um síðir á Djúpavogi og stundaði þar verslunarstörf. Hlökkum til að sjá ykkur öll.