Quantcast
Viewing all articles
Browse latest Browse all 3012

Meistarafyrirlestur: Óeðlilegir (atypískir) kirtlar í grófnálarsýnum frá blöðruhálskirtli

Hvenær hefst þessi viðburður: 
4. júní 2014 - 17:00
Staðsetning viðburðar: 
Nánari staðsetning: 
Stofa 131
Image may be NSFW.
Clik here to view.
Háskóli Íslands

Hrafnhildur Birgisdóttir flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í menntun framhaldsskólakennara - líffræðikennslu. Verkefnið ber heitið Óeðlilegir (atypískir) kirtlar í grófnálarsýnum frá blöðruhálskirtli.

Ágrip
Krabbamein í blöðruhálskirtli er gríðarlegt vandamál meðal karlmanna á Íslandi sem og í öðrum Vesturlöndum. Vefjagreining á blöðruhálskirtilssýnum gefur oftast afdráttarlausa niðurstöðu um hvort krabbamein sé til staðar eða ekki. Í hluta sýna greinast hins vegar atypískir (óeðlilegir) kirtlar sem eru af óvissri þýðingu.

Markmið
Markmið þessarar rannsóknar var að auka skilning á þýðingu atypískra kirtla í blöðruhálskirtli með því að kanna hversu oft slík greining er gerð í íslenskum efnivið og hvort munur sé á milli meinafræðinga að því leyti. Metið var hvort greining á atypískum kirtlum auki líkur á krabbameinsgreiningu síðar. Efniviður og aðferðir: Farið var í gegnum öll greiningarsvör grófnálarsýna frá blöðruhálskirtli sem bárust Rannsóknarstofu í meinafræði á Landspítalanum og Vefjarannsóknarstofunni að Suðurlandsbraut 4a á árunum 1998-2003 og þau flokkuð í 5 flokka, sýni án æxlisvaxtar, sýni með atypíu, sýni með atypíu sem þótti grunsamleg fyrir illkynja mein, sýni með PIN- breytingar og sýni með illkynja meini. Þessar upplýsingar voru síðan keyrðar saman við Krabbameinsskrá Íslands þar sem fengust upplýsingar um hvaða karlmenn fengu síðar krabbamein.

Niðurstöður og umræður:
Heildarfjöldi sýna var 1693 og skipting þeirra í flokka eftirfarandi: 45,4% án æxlisvaxtar, 5,2% með atypíu, 5,4% með grunsamlega atypíu, 3,8% með PIN-breytingar og 40,2% með illkynja meini. Þessi skipting var mjög breytileg milli meinafræðinga. Alls fengu 34,1% þeirra karlmanna sem greindust með atypíu eða grunsamlega atypíu síðar krabbamein en fyrir karlmenn sem greindust án æxlisvaxtar var þetta hlutfall 21,6%. Það er því ljóst að forspárgildi greiningar á atypíu er talsvert.

Leiðbeinendur voru Dr. Jón Gunnlaugur Jónasson og Dr. Bjarni A. Agnarsson og fulltrúi deildar Dr. Guðmundur Hrafn Guðmundsson.
Prófdómari verður Dr. Rafn Hilmarsson.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 3012